Fara í efni

NÝ SÝN Á FJÖLMIÐLA-FRUMVARPIÐ?

Sæll, Ögmundur, fínn pistill hjá þér um fjölmiðla og einkavæðingu, en varðandi fjölmiðlafrumvarpið langar mig að spyrja þig nánar út í afstöðu sína til þess á sínum tíma og í dag? Hefur afstaða þín breyst? Mig minnti að þú hefðir barist ötullega gegn því á sínum tíma en sýnist á þessum pistli að þú hugsir hlýjar hugsanir í garð þess.
Besta kveðja,
Viktor

Þakka bréfið Viktor. Afstaða mín hefur ekki breyst í grundbvallaratriðum en aðstæður hafa vissulega breyst. Ég sagði á sínum tíma að mótvægið við einkabransann ætti að vera Ríkisútvarpið undir handarjaðri okkar allra. Síðan sagði ég að mesti óvinur málfrelsisins á fjölmiðlum væri óöryggið sem gæti meðal annars skapast af bágri fjárhagslegri stöðu. Vinir nmínir á Helgarpóstinum í gamla daga sögðust hafa haft meiri ótta af auglýsendum en eigendum. Ég hef litið svo á að ef takist að mynda stönduga fjölmiðla með sjálfsörugga áhöfn þá væri til nokkurs unnið. Við slíkar aðstæður ætti eigendavaldið altént í höggi við varðmenn faglegra vinnubragða.
Síðan gerist það að RÚV er hlutafélagavætt og eignarhaldið á fjölmiðlunum verður einsleitara. Ráðningar á ritstjórnir taka að endurspegla þetta. Aðstæður hafa breyst og sennilega er það rétt hjá þér að hjá mér gæti meiri hlýju í garð fjölmiðlafrumvarpsins en áður var. Tímarnir breytast og mennirnir með. Ætli það eigi ekki við um mig einsog aðra.
Kveðja, Ögmundur