Fara í efni

Ný raforkulög leiða til verðhækkunar fyrir almenning

Sæll Ögmundur og þakka þér fyrir öfluga heimasíðu. Tilefni þess að ég sendi inn þessa línur er það að ég sá að þú vitnaðir þar til fréttar í Morgunblaðinu af raforkuráðstefnu VFÍ og TFÍ sem haldin var 20.nóvember sl. Þar bentir þú réttilega á rakalausan málflutning iðnaðarráðherra þegar kemur að því að réttlæta ný raforkulög. Fulltrúi iðnaðarráðherra á ráðstefnunni notaði frasa eins og "hefðbundin viðhorf hafa verið að breytast" og að "flest þróuð ríki" hafa tekið upp einkavæðingu raforkugeirans eins og það væri í sjálfu sér einhvers konar sönnun fyrir ágæti þessara breytinga. Auk þess sem gagnrýnislaust er haldið á lofti hefðbundnum staðhæfingum um ágæti hlutafélaga fram yfir rekstur ríkis og sveitarfélaga. Þessi málflutningur þykir nú orðið svo sjálfsagður "sannleikur" að ekki þurfi að færa  fyrir honum rök. Markaðurinn blífur. Og eins og Guðmundur Ingi Ásmundsson frá Landsvirkjun sagði: “Hlutverk laganna er að innleiða lögmál markaðarins í raforkuiðnaði á Íslandi”.

Það var því fróðlegt að sitja þetta annars ágæta þing - sem þó má gagnrýna fyrir að þar var engum boðið til framsögu sem fyrirfram hefði mátt ætla að hefði gagnrýna sýn á þá kerfisbreytingu sem í lagasetningunni felst. Þingið var fróðlegt fyrir þá sök að ekki var annað að heyra en flesta frummælendur skorti sannfæringu fyrir ágæti þessara laga.

 Annars vegar virtust menn hafa gert sér grein fyrir því að lögin eins og þau standa í dag tryggja ekki afhendingaröryggi - þau tryggja ekki að flutningskerfinu verði við haldið og það verði byggt upp með þeim hætti sem nauðsynlegur er. Markaðurinn mun stýra því að enginn vill framleiða "umframorku" - orku sem hægt verður að grípa til í harðæri - það borgar jú enginn fyrir þá framleiðslu. Friðrik Sophusson benti mönnum á að fyrir lagasetninguna hefði þessi kvöð legið á Landsvirkjun og öðrum, en að allar skyldur orkuframleiðenda til að framleiða næga orku væru nú niður fallnar. Og ekki er ljóst hvaða reglur eða hvatar eiga að stýra fjárfestingum í flutningskerfinu. Menn voru því á einu máli um að enn "væri mikil vinna framundan" í lagaumhverfinu.

 Það merkilegasta sem fram kom á þinginu - þó ekki væri að finna um það stafkrók í umfjöllun Morgunblaðsins - var að verð á raforku til almennra neytenda – heimilanna - mun hækka! Og það þrátt fyrir að í lögunum standi að þau eigi að "tryggja afhendingaröryggi og hagsmuni neytenda" -  og að málflutningurinn gangi allur út á að kostir samkeppninnar og hlutafélagavæðingarinnar sem skila muni sjálfkrafa hagræðingu fyrir neytendur. Það voru svo sem engir "gagnrýnendur" kerfisins sem þessu héldu fram, heldur Guðmundur Þóroddsson forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur og Friðrik Sophusson forstjóri Landsvirkjunar.

Sagði Guðmundur að "bara kostnaður við samkeppnina sjálfa" næmi um einum milljarði króna og það væri ekki lítil hækkun þegar heildarrekstrarkostnaður raforkukerfisins næmi um 10 milljörðum. Líklegast væri að nýju lögin "leiði til hækkunar til almennings en lækkunar til fyrirtækja". Friðrik Sophusson sagði ljóst að það yrðu "stóru aðilarnir" sem myndu græða á þessum breytingum, stóriðjan og aðrir stórkaupendur, ekki heimilin. Fyrir þau myndu lögin leiða til hækkunar á raforkuverði að öðru óbreyttu. Eina von þeirra til að raforkuverð lækki liggi í því að "samkeppnin" muni einhvern tíma í fjarlægri framtíð bæta þar úr.
Samt á að halda áfram og nota sama slagorðaflauminn!

Er nema von að þú sért orðin hálfvonlaus um að rök hafi eitthvað að segja, þegar kemur að ákvörðunum ríkisstjórnarinnar? En hvað er þá til ráða? Spyr sá sem ekki veit.
Kv.Helgi