Fara í efni

NÁNAST ORÐLAUS !

Sæll Ögmundur.
Nú er maður nánast orðlaus yfir nýjasta „afreki" ríkistjórn braskaranna á Íslandi. Að Hannesi Hólmsteini sé falin yfirstjórn að rannsaka erlenda áhrifahætti sem tengist bankahruninu á Íslandi er illa varið skattfé landsmanna. Þessi maður getur vart talist vera heppilegasti maðurinn til þessa starfs því hann er hvorki hlutlaus til verkefnisins né sérlega vel til þess hæfur að rannsaka eitthvað sem tengist efnahagslegum hagsmunum þar sem hann var aðal hugmyndafræðingur þeirrar spillingar og brasks sem tengja má frjálshyggjunni og leiddi til bankahrunsins.
Með þessu er ríkisstjórnin að hygla vildarmanni sínum sem er einn furðulegasti fræðimaður á sviði óheftrar gróðahyggju á kostnað venjulegs fólks. Því miður var það fyrst og fremst frjálshyggjan en ekki Bretar sem dró íslensku þjóðina á asnaeyrunum fram af hengifluginu og nú ætlar ríkisstjórnin að bíta í skottið á sjálfri sér og upphefja þennan furðulega fræðimann sem skilið hefir okkur í óráðsíu og spillingarfeni hagfræði andskotans.
Kommúnisminn var á sínum tíma slæmur. Spurning er hvort hagfræði Hannesar og frjálshyggjunnar reynist ekki jafnvel enn verri þegar upp er staðið. Mikill er spillingaróþefurinn af þessari ákvörðun og mun lengi í minnum höfð meðan land byggist.
Guðjón Jensson