Fara í efni

NÁLÆGÐ EIGNAR-HALDSINS SKIPTIR MÁLI!

Ég hlustaði á ykkur Brynjar Níelsson á Bylgjunni ræða eignarhald á landi. Brynjar kvaðst ekki sjá að það skipti nokkru máli hver ætti landið! Ég er hins vegar sammála þér þegar þú bendir á muninn á því þegar útgerðarmaðurinn átti heima í útgerðarplássinu annars vegar eða í lúxúsvillu utan plássins hins vegar.
Tilfinningarnar og þar með ábyrgðarkenndin til samfélagsins er allt önnur og geri ég mér þó grein fyrir Bogesen-valdinu í sjávarþorpum fyrr á tíð. Það vald var illt en ekki með öllu illt miðað við það sem á eftir kom.
Ef sjávarauðlegðin er bara andlag fjárfestingar, óháð samfélagi þá er illa komið. Hið sama á við um landið. Kannski er ekki hægt að ætlast til þess að málsvarar fjármagnsins skilji þetta. Enda klifaði Brynjar á því að hann hefði engar áyggjur. Þannig var það líka í aðdraganda hrunsins: Engar áhyggjur!
Jóel A.