Fara í efni

MÚTUR VIL ÉG EKKI Í MINN VASA

Það er fallegt af þér Ögmundur að bera blak af þeim aðilum sem eru að fá sölupeninginn af Símanum og eru flaðrandi upp um ríkisstjórnina af ánægju, þakklæti, bukti og beygju. Þú segir hér á síðunni: "Ekki er hægt að áfellast þá fyrir að gleðjast, forsvarsmenn aðskiljanlegrar starfsemi, sem eygja að fá hlutdeild í söluandvirði Símans. Málatilbúnaður ríkisstjórnarinnar í þessu samhengi er hins vegar ekki geðfelldur. Minnir á þegar reynt er að kaupa menn til fylgis við óvinsælar ákvarðanir."
Ég áfellist þennan mannskap alveg hiklaust og er þér fullkomlega ósammála að þessu leyti þótt ég sé eiginlega sammála þér um allt! Mér verður hreinlega illt af því að horfa á þetta flaður í garð kapítalistanna sem eru að útdeila stolnum auði. Sjálf er ég öryrki og geðfötluð og vil ekki sjá einseyring af mútufé ríkisstjórnarinnar.
Gunna