Fara í efni

MATARDISKUR OG FLUGMIÐI

MBL  - Logo
MBL - Logo

Birtist í Morgunblaðinu 13.11.10
Ég hitti nokkra félaga mína úr verkalýðshreyfingunni nýlega, hýra og glaða í bragði, enda nýkomnir úr samkvæmi þar sem samningamenn Íslands við ESB höfðu verið að „hrista sig saman". Ég spurði hvort þeir ætluðu ekki að haska þessu af, verkið væri í reynd ósköp einfalt, snérist um að kortleggja ágreininginn við ESB um auðlindamál, hvort við gætum samið um deilistofna eða yrðum undirseld ákvörðunum í Brussel, hvort við gætum rekið landbúnað á okkar eigin forsendum, hvort við sem ESB ríki kæmumst upp með sömu fyrirvara í lögum um þjónustuviðskipti og við gátum sett sem EES ríki í þjónustutilskipunina vorið 2009. Ekkert af þessu er flókið. Fram þyrfti að fá hver pólitískur vilji er í Brussel.

Tvöfalt siðgæði?
Samningamenn Íslands sögðu mér að málið væri flókið. Lesa þyrfti margar þverhandarþykkar skýrslur sem tæki langan tíma og gríðarlega yfirlegu og sækja þyrfti óteljandi fundi til að ræða málin fram og til baka. Það væri hins vegar góður liðsandi í samninganefndinni og hún ætlaði að reyna sitt ýtrasta til að breyta regluverki Evrópusambandsins Íslandi í hag.

Á meðal liðsforingja í samningalandsliði Íslands er Þorsteinn Pálsson. Hann skrifar á laugardögum um pólitík í Fréttablaðið. Oftast fjallar hann um ESB og VG. Textarnir eru smurðir orðnir enda viðfangsefnið og skilaboðin alltaf á sömu leið: Í landinu er slök ríkisstjórn sem í ofanálag á í stöðugu stríði við gagnrýnin viðhorf innan VG. Sérstaklega uppsigað er Þorsteini við allt sem hann telur vera rangtrúnað í ESB málum. Nýlega skrifar hann: „VG er með aðildarumsókn en á móti aðild hvernig svo sem samningar ráðast. Þetta er kennt við lýðræðisást. Í reynd er þetta dæmi um tvöfalt siðgæði og óheiðarlega afstöðu gagnvart kjósendum."

Ég er almennt ósammála Þorsteini Pálssyni hvað varðar lýðræðisskilning hans og þá einnig hvað áhrærir þetta tiltekna dæmi.

Tveir pólar - ein niðurstaða
Fyrir nokkrum árum var það orðið ljóst að stór hópur Íslendinga vildi komast inn í ESB og taldi þetta fólk að þannig yrði hagsmunum lands og þjóðar best borgið. Tínd voru til ýmis rök: Í Evrópu ættum við heima, við ættum að leggja okkar af mörkum til framþróunar í álfunni, við myndum búa við meiri stöðugleika en við gerðum ein á báti og þar fram eftir götunum. Fjölmargir stilltu sér upp á þennan pól.

Aðrir voru á gagnstæðum pól: Töldu að okkur væri betur borgið í samfélagi ríkja en í samfélagi einstaklinga á evrópskum markaði, við misstum forrræði yfir sjávarauðlindinni og öðrum þáttum efnahagslífsins, nokkuð sem við hefðum fengið forsmekkinn af í EES og þurfum að glíma við næstu áratugina.

Þessir aðilar spurðu hvers vegna við, sem sitjum á dýrmætum auðlindum, höfum allar forsendur til velsældar og sjálfræðis á lýðræðislegum forsendum þess fámennis sem hér er, en stórþjóðir skilja ekki, ættum að afsala okkur þessu sjálfsforræði.

Þessir tveir hópar hafa bent á það hvor frá sínum sjónarhóli að afstaða þeirra liggi nokkuð ljós fyrir. Annar hópurinn vill inn í ESB með öllum kostum þess og ókostum, hinn vill standa utan - einnig með kostum og ókostum. Báðir hópar telja sig þekkja öll grundvallaratriðin, spurningar sem þurfi að svara séu skýrar og veruleikinn margreyndur.

En svo er til þriðji hópurinn sem er blanda úr hinum tveimur og samanstendur af þeim sem telja að hugsanlega gætum við náð einhverju fram í samningaviðræðum; hugsanlega einhverju sem gerði inngöngu eftirsóknarverða þrátt fyrir allt. Kannski væri hægt að laga ESB að þörfum og hagsmunum Íslands - alla vega tímabundið.

Sjálfur hef ég aldrei haft trú á þessu. Ég er í hópi tvö sem telur að hagsmunir Íslands séu best tryggðir utan ESB og við getum þannig sloppið við miðstýringu ríkjabandalags sem er að fá á sig öll einkenni ríkis.

Auðvitað kann að vera gagn af því að heyra til slíku stórríki en einhvern veginn finnst mér það slæm tilhugsun þegar þjóð fer að trúa því að hennar framtíð liggi í því að sérhæfa sig í að kría út aðstoð og styrki í stað þess að treysta á eigið frumkvæði og hugmyndaaðugi.

Svo vill það gleymast í styrkjatalinu að styrkþeginn borgar oftar en ekki fyrir styrki sína sjálfur! Það ljótasta við aðlögunarstyrki ESB sem okkur eru nú bornir á silfurfati að styrkþeganum er ekki gerð grein fyrir því að reikningurinn verður sendur síðar. Fyrst njótum við réttanna en það er ekki fyrr en eftir inngöngu að upp rennur fyrir okkur að fyrir það sem var veitt skal líka greitt.

Þeir sem telja að eitthvað sé að semja um
Enda þótt ég gefi lítið fyrir samningaviðræður við ESB verð ég þó sem áður segir að beygja mig fyrir því að þar eru margir mér ósammála og vilja umfram allt láta reyna á slíkar viðræður. Haustið 2008, löngu fyrir síðustu alþingiskosningar, lýsti ég því yfir að ég væri fyrir mitt leyti tilbúinn að styðja að slíkar viðræður færu fram við ESB og að samningsdrög yrðu síðan borin undir þjóðaratkvæðisgreiðslu. Hér var einfaldlega um það að ræða að virða óskir fólks um málsmeðferð. Hver svo sem nálgunin yrði þá væri endanlegt ákvörðunarvald á hendi þjóðarinnar. Það er hin lýðræðislega hugsun sem allt annað hvílir á. Þessa lýðræðislegu hugsun skilja allir sem vilja skilja.

Það varð síðan ofan á hjá okkur í VG í stjórnarmyndunarviðræðunum 2009 að freista þess að tala Samfylkinguna inn á að láta fara fram tvöfalda kosningu: Spyrja fyrst þjóðina hvort hún vildi sækja um og síðan aftur að loknum viðræðum ef það á annað borð hefði orðið ofan á að senda inn umsókn. Fyrir þessu talaði VG í aðdraganda stjórnarmyndunar.

Fullstöðluð þegar stóra stundin kemur
Þessi nálgun hefði að sjálfsögðu verið rökréttasta og lýðræðislegasta nálgunin. En á þetta vildi Samfylkingin ekki fyrir nokkurn mun fallast og fór sem fór. Meirihluti Alþingis samþykkti að ganga til viðræðna við ESB - og leggja að þeim viðræðum loknum niðurstöðuna fyrir þjóðina til úrskurðar.

Líður nú tíminn. Viðræður hefjast með endalausum rýnihópum og kröfum um að við gerum eitt og síðan annað. Farið er að bera á okkur fé undir því yfirskini að þetta sé til að auðvelda gangverk samfélagsins og gera það skilvirkara og kröftugra. Það eigi að búa okkur sem best undir brúðkaupið; að við verðum fullstöðluð frammi fyrir altarinu þegar stóra stundin rennur upp.

Ekki er nóg með þetta. Sendiráð er nú opnað, endalausar sendinefndir koma og fara, Íslendingum er boðið í kynningar- og fræðsluferðir til Brussel, eflaust allt gríðarlega fróðlegt. Og viðurgjörningur eins og best verður á kosið. Það er fyrir löngu runnið upp fyrir mér að ESB vill Ísland. Það er búið að reikna út að við smellpössum inn í stórveldisdrauma gömlu nýlenduveldanna í Evrópu sem nú reyna að komast í endurnýjun lífdagana. Norðurslóðirnar eru nú komnar í sigti og gæti Ísland þar nýst vel.

Er þetta lýðræði?
En þá vakna erfiðar spurningar. Hvers má sín 300 þúsund manna þjóð gagnvart stórveldi með þykkt seðlaveski? Hversu lýðræðislegt er þetta tafl? Hvernig stendur á því að nánast alltaf í lýðræðislegum kosningum um sáttmála ESB - þar sem slíkar kosningar á annað borð hafa farið fram - er almenningur efasemdarfullur en stofnanaveldið, ríkisvald og sveitarstjórnarvald, fjölmiðlavaldið, atvinnurekendavaldið, verkalýðsvaldið - allt valdakerfið hliðhollt? Getur verið að þetta snúist meira en margur vill viðurkenna um matardisk og flugmiða?

Mín spurning er þessi, hvers vegna ekki sleppa aðlögunarferlinu og vinda okkur í viðræður? Klára þær á tveimur mánuðum og greiða atkvæði um afurðina? Þetta er hægt. Hið langa samninga/aðlögunarferli byggist á tvennu. Það er mótað í viðræðuferli Austurevrópuríkja sem voru með gerólíka innviði en við, sem þegar höfum lagað okkur að innra markaði ESB. Í annan stað segir mér hugur um að ferlið sé vísvitandi haft langt til að laða okkur til fylgilags. Þar eru styrkveitingar lykilatriði. Við megum ekki láta það henda okkur að framtíð Íslands ráðist af stundarhagnaði og tímabundinni vellíðan. Ég endurtek það sem ég áður hef sagt: Látum ekki villa okkur sýn með glerperlum og eldvatni.

Höfundur er alþingismaður og ráðherra.