Fara í efni

Magnús og Sigríður Anna vilja stríð en það má ekki drepa neinn!!

Ég er hreinlega gáttaður á heimsku og dómgreindarleysi þingmannanna sem styðja árásina á Írak. Yfirlýsingar þeirra í fjölmiðlum eru með ólíkindum. Kinnroðalaust lýsa þau því yfir að þau styðji árás Bandaríkjamanna og Breta á Írak. Magnús Stefánsson framsóknarmaður og varaformaður utanríkismálanefndar sagði í sjónvapi í gær að við hlytum að styðja "bandamenn okkar", þeir hefðu alltaf verið okkur góðir. Sannast sagna hélt ég að Bretar væru eina þjóðin sem ráðist hefur á Ísland í seinni tíð sbr. átökin um landhelgina. En látum það liggja á milli hluta því það skiptir akkúrat engu máli í þessu samhengi. Þetta snýst ekki um okkar hagsmuni heldur hvort réttmætt sé að ráðast á írösku þjóðina. Mér er líka spurn, hefur Magnús Stefánsson ekkert kynnt sér sögu Öryggisráðsins og hve oft aðrar þjóðir hafa hundsað samþykktir þess? Hann japlaði á því hve Írakar hefðu oft hundsað ráðið. En minntist að sjálfsögðu ekki á allar hinar þjóðirnar, vini Bandaríkjastjórnar sem hafa hundsað ráðið án þess að það raskaði svefnró þingmanna Framsóknarflokksins. Magnús sagði að huga þyrfti að endurskoðun Öryggisráðsins í ljósi þessara atburða. Skýri hann nánar hvað hann á við. Er það vegna þess Frakkar komu í veg fyrir að Bandaríkjamenn gætu beygt ráðið undir sig? Hvílík undirlægja þessi guðsvolaði Framsóknarflokkur er. Formaður utanríkisnefndar þingsins, sjálfstæðismaðurinn Sigríður Anna Þórðardóttir er ekki hótinu betri. Hún kallar árásirnar "aðgerðir". Það sem er vesælast af öllu er að hlusta á þetta fólk hvetja til stríðsaðgerða en segja jafnframt að þau vilji ekki að neinn verði drepinn!! Þau séu nefnilega svo friðelskandi. Er þetta fólk ekki með öllum mjalla? Heyra þau ekki mótsagninrnar í eigin tali erða eru þau einfaldlega slegin siðblindu?
Grímur H.B.