Fara í efni

MÆTUM Á MÁLVERKAUPPBOÐIÐ

Reykvíkingar athugið! Í kvöld milli kl. 20-22 verður efnt til málverkauppboðs í Egilshöll til stuðnings framboði Björns Inga Hrafnssonar. Boðin verða upp tíu ómáluð verk eftir Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra. Sérstakir boðsgestir verða fulltrúar Landsbankans og KB banka. Hvað gera þeir góðu gestir í kvöld? Borga þeir í sömu mynt og þegar ríkisstjórnin “seldi” þeim bankana, eða borga þeir í evrum? Er ekki kominn tími til að Landsbankamenn efli listaverkasafnið sem ríkisstjórnin gleymdi að gera ráð fyrir við bankasöluna? Og hvað gera KB bræður, þeir Sigurður værðarvoð og Hreiðar lopi, vinir og viðskiptafélagar málarans Halldórs? Hagnaður KB var 50 milljarðar króna í fyrra. Munu þeir kumpánar ekki slá til og verja þó ekki væri nema 10 mínútna gróða til að styðja við fjölbreytt listalíf okkar framsóknarmanna?
Sérstakur heiðursgestur og verndari stuðningssamkomunnar verður útrásarkonungurinn, Ólafur Ragnar Grímsson, á Bessastöðum. Og hver verður kóngsins boðskapur í kvöld? Mun hann fá málverk eftir langa tölu um útrásarþörf okkar, afkomenda víkinganna, og dýrðir kapítalismans? Eða flytur hann stutt og snjallt erindi um ómáluðu verkin hans Halldórs og telur hann þau kannski lifandi, kraftmikið og skemmtilegt dæmi um gjöfult samspil auðs, valds og lista? Allt mun þetta koma í ljós í kvöld og margt, margt fleira. Aðgangur er ókeypis og boðið verður upp á léttar veitingar að svipuðum styrkleika og kjörfylgi Framsóknarflokksins mælist nú um stundir
Stuðningsmannanefndin