Fara í efni

Lýsandi, en síður upplýsandi

 

Mér finnst skorta nokkuð á gagnrýni hjá ykkur í VG Ögmundur og þið látið menn og fjölmiðlamenn komast upp með óþarflega mikla manípúlasjón. Það var til dæmis einhver félagsvísindamaður sem sagði á dögunum að Halldóri Ásgrímssyni ætlaði greinilega ekki að takast að  rétta Framsóknarflokk sinn við í Reykjavík. Virtist vísindamaðurinn byggja álit sitt á DV skoðanakönnun. Hann hvorki röskstuddi skoðun sína né upplýsti vísindalega, hvernig hann komst að niðurstöðu sinni, þótt fjölmiðlar leituðu til hans sem vísindamanns og ekki einhvers ótiltekins manns sem í fáti er pikkaður upp í Kringlunni og spurður hvað honum finnst um Pétur eða Pál. Þetta eru dæmigerð sýndarvísindi eða kaffihúsaspeki. Ef menn vildu kommentera á skoðanakönnun DV þá voru tvær fréttir í þeirri könnun. Í fyrsta lagi að VG jók fylgi sitt umtalsvert og í öðru lagi að Sjálfstæðisflokkurinn tapaði fylgi sem aldrei fyrr. DV-drengirnir voru hvorki að slá því upp með látum, né fylgissveiflunni til VG. Þessi smáatriði virtust líka fara framhjá félagsvísindamanninum, ég man ekki hvort þetta var Stefán Gunnar Kristjánsson eða  Svanur Ólafsson, en það skiptir ekki máli í þessu sambandi. DV línan var að etja saman Halldóri og Ingibjörgu á forsíðu undir fyrirsögninni: Ingibjörg inn en Halldór úti. Þetta er dæmigerð ekki-frétt af því allir vita að fylgi framsóknarmanna í Reykjavík er við frostmarkið og ekkert sem bendir til þess að hitastigið hækki þar á bæ.  Af hverju ætli það hafi ekki verið fréttamynd af þér Ögmundur og Davíð Oddssyni undir fyrirsögninni: Ögmundur að vinna - Davíð að tapa. Hefði það ekki verið nær eða eðlilegra samkvæmt úrslitum skoðanakönnunarinnar? Það fannst mér. Allar þessar umræður sem hafa staðið um R-listann frá því Össur og Ingibjörg Sólrún tóku skammdegisflugið hafa sýnt að bæði fréttamenn og þáttastjórnendur eru jafn flínkir að lýsa hlutum og þeir eru óflínkir að upplýsa um baksvið atburða og setja þá í samhengi. Það má segja um kaffihúsaspekina eins og sagt var nýverið um annars konar þras: "Yfir kaffinu var hádegisverðurinn rifjaður upp og endalaus tilbrigði hans jafnvel leikin á ný. En í eldhúsinu var önnur umræða." Þessi seinni umræða er miklum mun áhugaverðari en leiktjöldin sem DV teiknar upp á forsíðum sínum, eða félagsvísindamennirnir í spjallþáttunum. Þetta er umræða Ögmundur sem VG verður að hafa frumkvæði að að halda fram, ef þið gerið það ekki þá verður sagt um ykkur, eins og sagt var um unga stúlku í nýlegri bók: "Þú varst bara eins konar leikmynd eða jafnvel frekar þetta sem þeir kalla props hérna í húsinu." Áfram Ísland, meiri gagnrýni, og hvassari.
Hafsteinn

Ég þakka þér fyrir bréfið og óska þér gleðilegrar hátíðar. Þú myndir kanski upplýsa okkur við tækifæri hvaðan tivitnanirnar eru. Annars er það dæmigert að maður staðnæmist við aukaatriðin.
Kveðja,Ögmundur