Fara í efni

Listskreyttir bankar

Komdu sæll Ögmundur.
Var ekki nokkuð til í því hjá Valgerði Sverrisdóttur viðskiptaráðherra þegar hún benti á það á Alþingi að engum væri greiði gerður að taka málverkin út úr bönkunum. Mér finnst ágætt að hafa þau þar til sýnis.
Hafsteinn

Komdu sæll og blessaður.
Ég er alveg sammála þér að gott er að hafa verkin í bönkunum. Spurningin er hins vegar um eignarhaldið á þeim ekki hvar þau eru til sýnis. Verk frá Listasafni Íslands og fleiri söfnum eru til sýnis í stofnunum og fyrirtækjum. Þannig hefði mátt fara með þessi verk einnig. Þótt þau væru í sameiginlegri eigu okkar áfram þá er ekkert sem mælir gegn því að þau héngju uppi í bönkunum. Ég er því fylgjandi að stofnanir og fyrirtæki kaupi listaverk og vonandi gera bankarnir það áfram. Það sem hér um ræðir er einfaldlega af miklu meiri stærðargráðu en gerist og gengur. Þarna eru í rauninni listaverkasöfn sem bankarnir í umboði eigenda sinna hafa verið að koma upp um áratugaskeið. Þetta er hluti af menningararfleifð þjóðarinnar sem hefur verið varðveittur með þessum hætti.
Kveðja,Ögmundur