Fara í efni

LÍKKLÆÐIN HAFA ENGA VASA

Sæll Ögmundur.
Að undanförnu hafa borist fréttir af ofurgróða Finns Ingólfssonar. Finnur verður seint vændur fyrir óheiðarleika af sínum vinum. En hvenær er komið nóg? Græðgin gleypir sálina og spillir henni. Þegar þorri þjóðarinnar tapar, raka stóreignamenn gróða, gríðarlegum gróða. Hvað þessi dauðlegi maður hyggst gera við sinn mikla gróða er á huldu. Gunnar Dal heimsekingur kennir að þegar fjáraflamenn hafa sankað að sér 100 milljónum þá verði það auðurinn sem stýri lífi þeirra en ekki þeir sjálfir. Einu sinni fyrir langt löngu veðjuðu tveir landeigendur í gömlu ensku nýlendunum í Norður Ameríku um það hvort þræll sem gefið væri frelsi, kæmi aftur. Þeir sögðu við þann ófrjálsa: „Þú öðlast frelsi og mátt eignast eins mikið land og þú getur farið um á einum degi." Þrællinn kom aldrei aftur enda vildi hann gjarnan þekkjast gott boð. Hann hljóp léttilega allan liðlangan daginn meir og meir, hljóp æ lengra til að ná í sem mest landsvæði. Svo kom að hann féll dauður niður af mæði og ofreynslu. Hjartað hafði gefist upp. Hann naut þess ekki að verða landeigandi gríðarlegs flæmis. Amma Mosa sagði einu sinni: „Vertu trúr yfir litlu, þá verður þér trúað fyrir meiru - seinna". Því miður eru gömlu góðu gildin á hverfanda hveli (upprunalegt var þetta orðtak: á hverfanda hjóli, Grettis saga). Græðgin var ein af „dauðasyndunum sjö" og eftir gömlu kenningum kaþólsku kirkjunnar tryggðu menn sér vist í því neðra að falla í þann pytt. Þýskt máltæki segir: „Das letzte Hemd hat keine Taschen" sem útleggst: Líkklæðin hafa enga vasa. Hvers vegna þyrfti að hafa vasa á líkklæðunum þegar sá dauði getur ekki haft neitt gagn af veraldlegum gæðum sínum þegar ormarnir og pöddurnar ráðast að hræinu.
Kveðja,
Guðjón Jensson, Mosfellsbæ