Fara í efni

LEIKUR EKKI SAMA OG VERULEIKI

Sæll Ögmundur. Björn heiti ég og hef verið mikill stuðningsmaður Vinstri grænna og virkur kjósandi flokksins síðan ég fékk kosningarétt minn.

Ég vil bara senda þér stutta línu um grein þína í Morgunblaðinu varðandi tölvuleikinn RapeLay og lagasetningu um kynferðislega glæpi á netinu. Þú segir í greininni að nauðgun sé ofbeldi og tengir það beint við umræddan leik. Leikurinn er ógeðslegur og það er sláandi að svona leikir skuli vera til, en það er ekki hægt að setja samasem merki milli sýndarleiks og raunverulegs kynferðislegs ofbeldis. Mér finnst undarlegt að ég þurfi að benda þér á að þegar menn spila leikinn RapeLay þá er það ekki raunveruleikinn, alveg eins og skotleikir er ekki raunveruleikinn. Við tilkynnum ekki lögreglunni ef við verðum varir við tölvuleiki á netinu þar sem fólk er skotið til bana vegna þess að þetta eru einmitt "leikir".

Þótt mér og þér þyki einhverjir tölvuleikir með eindæmum ógeðslegir getum við ekki farið fram á að það verði sett í lög að banna þá. Það er ekki okkar að ákveða. Um leið og ofbeldi verður raunverulegt þá er hægt að grípa í taumana. Mér finnst mikilvægt að setja lagaákvæði um eftirlit með raunverulegu kynferðisofbeldi á netinu, t.d. að koma í veg fyrir að krakkar undir lögaldri séu lokkaðir á spjallrásum. En þetta tilvik fellst einfaldlega ekki undir raunverulegt kynferðisofbeldi, þó okkur þyki það ósmekklegt.
Bestu kveðjur
Björn Björnsson

Þakka þér kærlega fyrir bréfið Björn. Ég er þér sammála að mjög eiga menn að fara varlega þegar kemur að banni á ritefni eða myndefni. Þá er maður kominn hættulega nálægt ritskoðun. Það er líka rétt hjá þér að drápsleikir hafa lengi verið með okkur sem eins konar viðurkenndur sýndarveruleiki. Einhverra hluta vegna þykir mér "nauðgunarleikur" vera langt út yfir það sem samfélag getur horft þegjandi á að verði að viðurkenndu skemmtiefni. Því miður er nauðgun nokkuð sem á sér stað næstum dag hvern og er því  annað og meira en sýndarveruleiki í lífi margra. Um þetta erum við sammála. Álitamálið lýtur einvörðungu að banninu. Ég mun hugleiða þínar röksemdir.
Kveðjur,
Ögmundur