Fara í efni

KRÓNAN HÆTT AÐ VEITA UPPLÝSINGAR UM STÖÐU HAGKERFISINS

Blessaður.
Ágætis grein um fjármál og vexti frá þér. Þessi vandamál væru ekki þau sömu ef við hefðum vit á að vera með í Evrunni. Röksemdir fyrir sjálfstæðum gjaldmiðli eru fyrst og fremt þær að gengi jafni kjörin, þeas. ef viðskiptakjör versna þá lækkar gengið. Þá minnkar kaupmáttur allra en í staðinn minnkar hættan á atvinnuleysi. Þessi kenning er rétt ef um er að ræða sveiflur 10% plús eða mínus. En hagkerfislegt sjálfstæði getur líka farið illa með þjóðarhag. Ef sveiflurnar verða miklar (einsog nú er) er hætta á að heilu atvinnugreinarnar verði ósamkeppnisfærar og þá fáum við fjöldaatvinnuleysi, ekki bara sveiflukennt atvinnustig, einsog við fengjum ef við værum tengd við stóran gjaldmiðil. Markaður verður að vera stór til að virka og hægt er að "hijacka" litlu hagkerfi af tiltölulega fámennum hópi spákaupmanna innlendra og erlendra, einsog nú virðist vera uppi á teningnum.
Við skulum ekki gleyma því að með því að vera hluti af Evrunni, sem er það svæði sem við verslum mest við, þá verða "upplýsingarnar" sem atvinnulífið fær frá markaðnum "réttari" og ekki fullar af gengisblekkingum. Hversu oft heyrum við ekki að atvinnulífið sé í mínus, en það sé nú bara vegna gengismunar. Eða á hinn veginn, gríðarlegur gróði, en fyrst og fremst vegna gengishagnaðar. Sjálfstæður gjaldmiðill í örsmáu hagkerfi elur á spillingu og spákaupmennsku og kostar auk þess mikið að reka. Krónan er löngu hætt að veita nokkrar upplýsingar um stöðu hagkerfisins, löngu hætt að veita hagkerfinu nokkra vernd og löngu hættur að vera sá stuðpúði sem talsmenn hennar telja hennar aðalsmerki.
Ísland er að verða "Gambler´s Paradise" þar sem rekstrarreikningur fyrirtækjanna skiptir engu máli. Það er efnahagsreikningurinn sem gefur gróða eða tap.
Þráinn