Fara í efni

KOSSABANDALAGIÐ

Almennt er ég mikið gefinn fyrir kossa. Í minni sveit kysstust vinir og ættingjar þegar með þeim urðu  fagnarðarfundir. Þetta átti bæði við um konur og karla. Ég hef sem aðrir fylgst með samningafundum þeirra Ingibjargar Sólrúnar og Geirs Hilmars á misgengissvæðinu við Þingvallavatn. Þau virtust sammála í einu og öllu. Hvorki stóð heilbrigðisstefna Íhaldsins í Samfylkingunni né Írak og Fagra Ísland og Unga Ísland á að bíða eftir stöðugleika því eins og nýr félagsmálaráðherra segir, þá þurfa fátæk börn að gera sér grein fyrir því að það má ekki stofna til útgjalda sem setja verðbólguna í gang. Allra síst væri fátæku börnunum greiði gerður með því að efna til útgjalda í ráðuneyti félagsmála!
En aftur að kossunum. Ég stóð í þeirri trú að ISG og GHH væru hvorki ættingjar né vinir. Og þótt þau hafi ekki verið lengi fjarvistum eru þau stöðugt að kyssast. Kannski er þetta einhver tegund pólitískra ásta sem ég kann ekki skil á. Gæti verið að þarna væri komið nafnið á nýju stjórnina: KOSSABANDALAGIÐ.
Haffi