Fara í efni

Kennisetning Carters

Sæll Ögmundur. Ég lýsti því á dögunum að ég drægi í efa þekkinguna sem ákvarðanir í utanríkismálum byggjast á. Ég er ekki að tala um skoðanir stjórnarmálamanna, tilfinningar þeirra, eða áróðursbrögðin sem þeir, og embættismenn þeim hliðhollir, beita. Ég er að tala um þekkinguna. Ég er líka að tala um í þessu samhengi þekkinguna sem er til staðar í stofnun eins og Morgunblaðinu sem fjallar allra stofnana mest um árásina á Írak. Ástæða þess að ég dreg í efa þekkingarstigið er sú að menn virðast í yfirlýsingum sínum og geðshræringum láta hina sögulegu vídd lönd og leið og hirða ekki um að reyna að skoða árásina á Írak sem hluta af utanríkismálastefnu Bandaríkjanna til langs tíma. Árás af þessu tagi dettur hvorki af himnum ofan né er hún birtingarmynd mannvonsku eins eða tveggja manna. Þú veist vegna starfa þinna sem erlendur fréttamaður að Jimmy Carter skildi ekki mikið eftir sig sem forseti. Hann gegndi hins vegar embætti þegar yfir Bandaríkjamenn reið niðurlægingin að geta ekki bjargað gíslunum í Íran. Þetta var eftir að keisaraveldið var afnumið og klerkarnir í Íran tóku völdin. Um þetta leyti varð til Carter-kennisetningin eða það eina sem þessi þáverandi forseti skildi eftir sig. Kennisetningin er grundvöllur afskipta Bandaríkjamanna í Mið-austurlöndum og gengur í stuttu máli út á að Bandaríkjamönnum sé það lífsnauðsynlegt að hafa greiðan aðgang að olíulindunum þar sem eru tveir þriðju vinnanlegrar og þekktrar olíu í heiminu. Þessi aðgangur að olíunni sé grundvöllur lífsmáta Bandaríkjamanna og að fyllilega réttlætanlegt sé að beita hervaldi til að tryggja þennan greiða aðgang. Þverstæðan í þróun mála er að árásin á Írak nú byggir jafn mikið á þessari kennisetningu og stuðningur Bandaríkjamanna við Írak og Saddam Hussein þegar þeir kynntu undir átökin við Íran upp úr 1980. Það sem alvarlegast er í þessu sambandi og sýnir hve miklu máli þessi óhefti aðgangur að olíunni fyrir botni Persaflóa skiptir Bandaríkjamenn er að þeir byggðu upp og fengu hryðjuverkamanninum Saddam Hussein í hendur sýkla og efnavopn sem herir hans beittu bæði í stríðinu við Írana og í staðbundnum átökum við Kúrda. Bandaríkjamenn hafa ekki verið dregnir til ábyrgðar fyrir þátt sinn í þeim grimmdarverkum. Það er svo umhugsunarefni að það voru menn eins og Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sem var milligöngumaður um hervæðingu Saddams Husseins í stríði Íraks og Írans á sínum tíma. Árásin sem gerð var á Írak 1991 hvíldi líka á Carter-kennisetningunni um að verja olíuhagsmuni Bandaríkjanna með “any means necessary, including military force.” Á grundvelli kennisetningarinnar gerðu þrír öfgamenn bréflega kröfu til þess árið 1998 að Bill Clinton, þáverandi forseti Bandaríkjamanna, hæfi tafarlausa árás á Írak, ekki vegna hættunnar á að Írakar notuðu efnavopnin sem bandarísk stjórnvöld útveguðu þeim áratug áður heldur vegna olíuhagsmuna Bandaríkjamanna. Þeir sem rituðu undir bréfið til Clintons óttuðust að ef ekki yrði gengið frá Saddam “a significant portion of the world´s supply of oil will be put at hazard.” Þeir sem skrifuðu bréfið eru þremenningarnir Richard Perle,  Donald Rumsfeld og Paul Wolfowitz – þeir menn sem nú stýra Bush Bandaríkjaforseta. Árásin á Írak er í fullu samræmi við Carter-kennisetninguna og ætti því ekki að koma á óvart í utanríkisráðuneytinu, utanríkismálanefnd, eða á herfræðiskrifstofum forsætis-og utanríkisráðuneytisins. Við verðum að gera kröfu til þessara stofnana að þær byggi bæði forsætis-og utanríkisráðherra upp þekkingarlega þannig að þeir geti tekið þátt í alvöru umræðum um árásina á Írak, þegar fjölmiðlunum þóknast að spyrja spurninga sem erlendir fjölmiðlar hafa verið að spyrja síðustu vikurnar. Við verðum líka að gera þá kröfu til Morgunblaðsins, sem þú varst að hæla á dögunum, að blaðamennirnir þar éti ekki fyrirhafnarlaust úr fréttahönd Fox sjónvarpsstöðvarinnar, eða BBC sem hefur vegna þátttöku Breta í stríðinu sérstakar vafasamar skyldur, heldur reyni að verða sér út um annars konar upplýsingar til að setja í gang það sem eftir er af gagnrýnni hugsun. Mörg blöð í Evrópu birta til að mynda leiðbeiningar  með útskýringum til lesenda um hvernig og af hverju þeir eiga að draga í efa upplýsingar sem birtast nú um árásina á Írak á opinberum vettvangi. Bæði ráðherrarnir og morgunblaðsskríbentarnir mættu svo hugsa til kennisetningar Carters sem allt fyreværkeriet hvílir á. Það er svo sem hægt að fyrirgefa ráðherrunum að muna ekki eftir þessu en forsætisráðherra fékkst þá við að skipuleggja skólplagnir í Reykjavík og utanríkisráðherra var að koma á kvótakerfinu. Mogganum er hins vegar vart hægt að fyrirgefa af því þeir rituðu ekki svo lítið um stríð Íraks og Írans á sinni tíð – á grundvelli kennisteningar Carters – um svipað leyti og þeir fóru að fjalla um rauðvín í dálkum sínum.  Árásin verður svo auðvitað jafn siðlaus og jafn langt utan alþjóðalaga. 
Ólína

 

Heil og sæl, Ólína ég þakka þér fyrir mjög umhugsunarvert bréf sem vekur margar spurningar. Merkileg er tilvísun þín í Carter-kennisetninguna og þá sérstaklega í bréf þeirra þremeninga frá 1998. Ég ætla að vekja athygli á bréfi þínu í Brennideplinum hér ofar á síðunni og þar gef ég vefslóð á grein eftir Richard Perle í breska stórbalðinu Guardian í dag þar sem hann fagnar sérstaklega vandræðum Sameinuðu þjóðanna. Hér er hins vegar vefslóð sem þú lést fylgja bréfi þínu og er mjög athyglisverð því auk skírskotunar til bréfs þeirra félaga sem þú víkur að þá er hér minnt á hvert viðhorf varnarmálaráherra Bandaríkjanna Donald Rumsfeld hefur til Sameinuðu þjóðanna. Vefslóðin vísar til greinar í skoska blaðinu Sunday Herald:  www.rense.com/general35/clinton.htm 

Kveðja,Ögmundur