Fara í efni

KATTARÞVOTTUR GAGNVART ÍRAK ER NÁNAST VERRA EN EKKERT

Kæri Ögmundur.
Ég mótmæli hálfkáki núverandi stjórnvalda, þá sérstaklega hlutverki núverandi utanríkisráðherra, viðvíkjandi mótmælum íslensku þjóðarinnar gegn ólöglegri og siðlausri innrás Bandaríkjanna og Englendinga í Írak sem ógnaði hvorugri þjóðinni, hvað þá okkur Íslendingum. Þetta ódæði var framið eftir að Írakar höfðu þurft að sæta langvinnum efnahagslegum refsiaðgerðum og  stöðugum loftárásum Bandaríkjamanna. Verslunarbannið fól m.a. í sér að Írökum var meinað að afla nauðþurfta, matvæla og lyfja.  Sameinuðu þjóðirnar höfðu á að skipa einna bestu sérfræðingum heims um voðavopn, Hans Blix og Muhammad al-Baradai, til að rannsaka hvort Saddam - stjórnin hefði þau ólöglegu vopn sem Bandaríkin og Englendingar fullyrtu að Írakar hefðu yfir að ráða.

Þeir fundu engin slík vopn og töldu allar líkur benda til þess að þau væri ekki að finna í Írak. Bandarískir vopnaleitamenn fundu heldur engin slík vopn. Í raun voru Írakar varnarlausir gegn mestu herveldum jarðar!

Tveir aðilar, sem í krafti embætta sinna komu fram í nafni íslensku þjóðarinnar, settu Íslendinga á lista hinna tilleiðanlegu þjóða er samþykktu þessa löðurmannlegu innrás Bandaríkjanna. Þetta var gert utan við lög og rétt og án samþykkis íslensku þjóðarinnar. Ekki var leitað eftir samþykki Alþingis einsog lög kveða þó á um þegar um mikilvægar ákvarðanir í utanríkismálum er að ræða. Þetta gerðu þeir Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson eftir að Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hafði neitað Bandaríkjamönnum og Bretum um leyfi til að ráðast á Írak, jafnvel eftir að Bandaríkjamenn höfðu beitt öllum ráðum til að fá þjóðir Öryggisráðsins til að styðja þá. Upp hefur komið að þeir beittu jafnvel mútum og ögrunum við fulltrúa þjóða Öryggisráðsins ásamt helberum lygum og blekkingum. Utanríkisráðherra þeirra, Colin Powell, kom fram fyrir heimsbyggðina í Öryggisráðinu með dylgjur og lygar sem dugði þó ekki þar sem heilbrigt hugsandi fólk sá í gegnum undirferlið og lygarnar en Bandaríkin réðust samt sem áður á varnarlaust Írak.

Aðalritari Sameinuðu þjóðanna Kofi Annan lýsti yfir að innrás Bandaríkjanna væri ólögleg og heimsbyggðin taldi hana algjörlega siðlausa. Nema hægt var að fá nokkrar tilleiðanlegar þjóðir sem voru settar á lista sem var stanslaust rúllað upp sjónvarpsskjána um heim allan, og blygðuðust allir góðir og heiðvirðir Íslendingar þegar þeir sáu nafn ÍSLANDS á þessum löðurmannlega lista. Íslendingar heimtuðu strax að vera teknir af lista hinna tilleiðanlegu en þjónar Bandaríkjanna sem settu Íslendinga á þennan lista í óleyfi sátu fast við sinn keip og gera enn. Þessu mótmæla allir sannir Íslendingar!

Við mótmælum ekki aðeins sjálfri innrásinni í Írak heldur ekki síður því að íslenska þjóðin var sett á lista hinna tilleiðanlegu þjóða til samsæris innrás Bandaríkjanna á Írak!

Ýtarleg tillaga var borin fram til þingsályktunar á háttvirtu Alþingi Íslendinga, 131. löggjafaþingi, 2004 – 2005, þingskjal 3 – 3. mál. Hún var undirrituð af formönnum þriggja stjórnmálaflokka sem fluttu tillöguna, þeim Össuri Skarphéðinssyni, Steingrími J. Sigfússyni og Guðjóni A. Kristjánssyni, með, fyrirsögninni “UM INNRÁSINA Í ÍRAK OG FORSENDUR FYRIR STUÐNINGI ÍSLENSKRA STJÓRNVALDA VIÐ HANA!”  En enginn árangur hefur orðið né málið einu sinni verið tekið til atkvæðagreiðslu á Alþingi.

Því beið fólk með öndina í hálsinum eftir ákveðinni afstöðu í þessu máli þegar Samfylkingin fór í ríkisstjórn. En ekkert skeði. Samþykkt var að lýsa yfir að ríkisstjórn Íslands harmaði núverandi stríð í Írak, eins og að það væri eitthvað sérstakt þar sem allt fólk heims harmar það, þá ekki síst Bandaríkjaforseti og þeir sem hafa staðið að þessu ólöglega og siðlausa stríði. Enda er það ekki málið hvort við hörmum innrásina og pyntingarnar, bölið og þjófnaðinn í Írak, sem fer ekki á milli mála. Krafan er sú að íslensk stjórnvöld axli ábyrgð á beinum stuðningi við ofbeldið og lögleysuna – ekki með hálfkáki heldur þannig að ekki fari á milli mála! Kattarþvottur er nánast verra en ekkert.

Þar sem INNRÁSIN í Írak var algjörlega ólögleg samkvæmt alþjóðalögum og Sameinuðu þjóðunum og svívirðilegt siðleysi samkvæmt réttlætiskennd heilbrigðs fólks um heim allan, þá er HERSETA Bandaríkjanna og Englendinga þar ólöglegt siðleysi. Þar með bera Bandaríkin og Englendingar fulla ábyrgð á öryggi og velmegun hinnar herteknu þjóar. Stofnun bandarísku leppstjórnarinnar í Írak kemur Bandaríkjunum engan veginn undan þessari miklu ábyrgð, né ábyrgðinni á pyntingum og morðum borgaranna.

Um 4.000 ungir bandarískir hermenn hafa misst lífið í viðureign við frelsisbaráttu Íraka. Um 40.000 hafa bæklast og enn fleiri hafa skaðast alvarlega á geðsmunum, og enginn veit hvað margir hafa strokið úr herþjónustunni. Eitt er víst að svo er erfitt að fá fólk í bandaríska herinn í dag að skilyrðin hafa verið lækkuð svo að ólæsir eru velkomnir og útlendingum, þá sérstaklega frá rómönsku Ameríku, er tekið opnum örmum.

Mannfall Íraka af völdum innrásarinnar skiptir hundruðum þúsunda. Miljónir eru nú heimilislausir á vergangi og engar tölur ná yfir þann fjölda sem hefur örkumlast á sál og líkama! Borgir Íraks eru í rúst og ómetanlegar fornminjar mannkynsins þar í landi, annað hvort stolið eða eyðilagðar.

Það eina sem Bandaríkjamenn lögðu áherslu á eftir hernámið var að vernda olíuauð Íraks og ætluðu þeir sér að vernda olíuiðnaðinn svo þeir gætu haft gott af en það hefur ekki tekist betur en svo að framleiðslan er mikið minni en hún var undir Saddam.

Stóra spurningin er auðvitað hvort þeir sem bera ábyrgð á ólöglegri og siðlausri innrásinni í Írak og því einnig hersetunni og pyntingunum nú, verði ekki dregnir fyrir alþjóðaglæpa-dómstólinn í Haag og viðkomandi þjóðir látnar greiða Írökum gífurlegar skaðabætur!

Það var móðins á tíma innrásarinnar í Írak að Bush og hans fólk spurðu áheyrendur: „Hvort komast Írakar betur af nú eftir að við höfum frelsað þá eða undir stjórn Saddam Hussein?“ Svona spyr enginn lengur!
Helgi