Fara í efni

JESÚ KRISTUR KAPÍTALISMANS

Það er í lagi að nota stór orð af því forsetinn synjaði Icesave-lausn II staðfestingar. Röksemdirnar eru þessar: Forsetinn fór á svig við það sem menn ætluðu sér með lögunum frá 1944, ekki bara í Icesave II málinu heldur almennt talað. Hann misskilur lögin! Skilningurinn rétti er sá að hann, sá eini, skuli meta það hvenær þjóðin fær að segja sína skoðun, en alls ekki þjóðin sjálf. "Hann á að vísa málum til þjóðarinnar ef hann telur þau þess eðlis að þjóðin verði að tjá sig um það sem slík, burtséð frá því sem hún hefur sagt í skoðanakönnunum eða á Facebook-síðum." Það er Svavar Gestsson, fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins sem mælir þessi orð í febrúar 2010. Um þau má segja að það er ekki aðeins að fortíðin eltir mann uppi heldur siglir hún fram úr manni fyrir fullum seglum. Auðvitað ber forseta að hlusta á þjóð sína. Tími hins menntaða einvalds er löngu liðinn.

Það er vont að sjá að Icesavelausnirnar I og II, sem Svavar og félagar skiluðu, lausnir sem forsætisráðherra viðurkennir nú að hafi ekki verið nógu góðar og forsetinn vill skjóta til þjóðarinnar, skuli villa jafn ágætum félaga sýn. Menn megi ekki hlutgera sjálfa sig í tæknilegum skuldalausnum með þessum hætti. Svavar er ekki Icesave, hvorki I né II, og Icesave ekki hann.

Ég hef fulla samúð með tilfinningum formannsins, skil vonbrigði hans í ljósi þess sem hann hefur áður sagt, en mér finnst sjónarmiðin samt fremur óþægileg. Svavar Gestsson langaði til að "gera gagn" þegar efnahagskerfið hrundi og hann var gerður að formanni samninganefndar Íslands gagnvart Hollendingum og Bretum. Ekki létt verk, en formaðurinn var ánægður með niðurstöðuna úr Icesave I þegar átti að skutla henni gegnum þingið á innan við 10 dögum. Í viðtali í júní 2009 orðaði hann þetta svona: "Það stórkostlega við þessa niðurstöðu er að það þarf ekki að loka einu einasta sjúkrarúmi eða einni einustu skólastofu næstu sjö árin fyrir þessa lausn. Það þarf ekki að skerða hár á höfði velferðarkerfisins næstu sjö árin."

Hér er talað um árin sjö á og því er skilgreining Svavars á hlutverki Íslands í samfélagi þjóðanna einkar athyglisverð, orðin dýr, og lítt skiljanleg. Ef Icesave-reikningarnir hefðu ekki verið gerðir upp hefði peningakerfi Evrópu hugsanlega hrunið segir Svavar: "Við erum í rauninni að bera burt syndir heimsins, eins og sagt var um Jesú Krist."

Hér hefði þurft að spyrja: Ef íslenska þjóðin er Jesú Kristur kapítalismans hver er þá Guð almáttugur?  Og áfram má spyrja út frá hnjóðsyrðum um forseta Íslands í fjölmiðlum, nú síðast í Fréttablaðinu: Af hverju ekki að láta forsetann í friði?

 Ólína