Fara í efni

ICESAVE OG ÁFRAMHALDANDI ÓREIÐA

Einn mikilvægur þáttur í að koma gjaldþrota Íslandi á lappirnar er að samþykkja Icesave samkomulagið. Þetta er því miður illskásti kosturinn. Vonlaust er fyrir Ísland að fóta sig á alþjóðavettvangi ef þeir velja að vera óreiðumenn sem ekki greiða skuldir sínar. Og hvers vegna ætti þjóðin að vilja það? Hún getur greitt og á að sjálfsögðu að gera það. Um leið og Alþingi samþykkir samkomulagið verður þjóðin búin að gleyma því. Það er vissulega forvitnilegt að vita hvað myndi gerast ef samkomulagið yrði fellt. Þá myndast nýr meirihluti á Alþingi um málið og sá meirihluti gæti kosið nýja samninganefnd. Í slíkri nefnd ættu þeir, sem harðast hafa gagnrýnt, að eiga sæti. Því miður gæti sú forvitni reynst þjóðinni afar dýrkeypt og dregið mál á langinn og jafnvel leitt til einangrunar. Hitt er annað mál að þjóðin mætti draga einhvern lærdóm af þeim hamförum sem stjórnarfar síðustu ára leiddi yfir hana, en það virðist hún ekki gera. Dæmi: Cecilsson hf, Grundarfirði, virðast hafa forðað skipum og kvóta undan veðkalli en skilið eftir skuldir upp á 7, 5 milljarða fyrir íslenska skattgreiðendur að greiða. Ætla yfirvöld ekki að afturkalla þennan gjörning og taka þessi verðmæti upp í skuldina? Sama hefur gerst með Eimskip og fleiri fyrirtæki. Á sama tíma og skattgreiðendum er gert að greiða gríðarlegar óreiðuskuldir er þetta að gerast. Þetta má þjóðin ekki sætta sig við. Tafarlausar aðgerðir, takk. Þá vil ég benda á að fyrrverandi ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu gerðist sekur um misnotkun á innherjaupplýsingum og hagnaðist gífurlega á því. Hann er enn í trúnaðarstöðu fyrir ríkið sem ráðuneytisstjóri nú í menntamálaráðuneytinu! Þetta er ekki hægt að bjóða þjóðinni. Það er lykilatriði að þessi aðilar sem svo augljóslega eru að auðgast með ólöglegum hætti sæti refsingu. Þannig fást mikilvægir aðilar til samstarfs, annars ekki. Ef ekki verður refsað öðrum til viðvörunar þá mun ekkert breytast og ástandið verða þjóðinni illviðráðanlegt.
Pétur