Fara í efni

HVERS KONAR BANKAKERFI?

Sæll Ögmundur takk fyrir gott svar síðast, það er kannski annað mál sem ég hef velt fyrir mér lengi, og mér finnst kannski mikilvægt að fá svar við. Það er mikið rætt um að kljúfa bankarekstur í fjárfestingarhluta og svo hefðbundin viðskiptabankahluta, er þetta leið sem við eigum að taka upp hér í ljósi atburða? Og loks af því að ég trúi á ríkisrekstur á ákveðnum sviðum, hvað er því til fyrirstöðu að hafa ríkisbanka á íslandi? Það gekk bara alveg ágætlega fram að einkavæðingu og jafnvel fram til 2002 þegar ríkið seldi frá sér sinn hlut.
Gunnar

Það er ekkert því til fyrirstöðu að hafa ríkisbanka, þvert á móti er það heppilegt og nauðsynlegt fyrirkomulag að mínu mati. Ríkisbankarnir voru reknir án stuðnings ríkisins með þeirri undantekningu að Landsbankinn fékk tímabundinn stuðning í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar en það var allt greitt til baka ef ég man rétt.
Það er fráleitt annað en að hér í okkar litla hagkerfi sé kjölfestubanki í eigu ríkisins og ekki má gleyma því að arðgreiðslur til ríkisins úr Landsbankanum sem er í okkar eigu, skipta ríkissjóð verulegu máli. Mér finnst allrar athygli verðar tillögur Dögunar hér í Reykjavík að koma á fót borgarbanka að hætti nokkurra borga í Bandaríkjunum en reynslan af slíku fyrrikomulagi þykir góð.
Ég hef lengi viljað aðskilnað fjárfestingabanka og viðskiptabanka og flutti ítrekað um það frumvörp í aðdraganda hrunsins. Því miður var þessu ekki hrint í framkvæmd á síðasta kjörtímabili.
Kv.,
Ögmundur