Fara í efni

HVER ER ÍSKARÍOT?

Ég sá í sjónvarpinu nokkra menn, þétta á velli, ganga inn kirkjugólf í Grafarvogi. Þar sem þeir röltu inn í helgidóminn drúptu þeir höfði eins og í lotningu, eða var þetta teikn að ofan, merki um hversu mjög mennirnir voru bugaðir, eða kannski auðmjúkir. Eða upplifðu þeir sig eins Jesú Krist í allt öðrum göngutúr. Þyrnikórónan var geislabaugur, eins og á sunnudagskólamyndum hvítasunnumanna, og álútir voru þeir, kannski vegna alls hagnaðarins sem þeir í skjóli fákeppni, einkavæðingar og skattalaga, sem breytt var í þeirra þágu á Alþingi, beygir þann sem ætti að brotna. Voru þeir kannski að leika Krist þessir menn í kompaníi við kirkjuna sem kennir sig við gröf? Kannski voru þeir að reyna að toppa symfóníuna, forsetann og KB banka sem buðu upp á einkasamkvæmi með söngvara. Manni er nú farið að detta í hug hvort gerist á undan að forsetinn fær sér nýja þjóð eða þjóðin nýjan forseta. Víst er að hann er að ganga frá forsetaembættinu sem þjóðarembætti enda virðist hann vera orðinn einhvers konar kynnir eða veislustjóri í sirkus nýja íslenska valdsins. En aftur í messuna. Þegar inn kom settust þeir inn í aðra leikmynd kristninnar kaupsýslumennirnir. Nú settust þeir fyrir fram altarið, þéttir á velli, í afskræmt afbrigði af síðustu kvöldmáltíðinni í gerð Michelangelós og voru allt í senn persónur, leikendur og gerendur í sjálfum kristindómnum og vestrænni menningu. Þeir voru að gefa orgel, eða leggja fram innborgun, það skiptir ekki máli. Presturinn rétti þeim eitthvað sem gat líkst bita. “Og eftir þann bita fór Satan inn í hann.” Þetta er að verða geðslegt, eða hitt þó heldur. Fyrst er þeim tryggður fákeppnisaðgangur á Alþingi að okkur sem þurfum á nauðsynjum og tryggingum að halda með því að götótt lög um samkeppnishömlur og eftirlit eru sett. Svo kaupa þeir upp fjölmiðlana til að geta séð okkur fyrir andlegu fóðri, afþreyingunni stjórna þeir og kaupa, forsetann virðast þeir hafa eignast fyrir smotterí og nú er það kirkjan. Þarf maður virkilega að segja sig úr sambandi við þetta þjóðfélag til að losna við þess lágkúru? Þarf ég að hætta að versla í Bónus eða hjá VÍS? Hver er þín skoðun Ögmundur? Hvar er nú þín handleiðsla? Eða er Júdas Símon Ískaríot kannski í öllum, líka okkur konunum?
Kveðja,
Ólína

Sæl Ólína og þakka þér fyrir bréfið. Sannast sagna hef ég saknað þess að heyra ekki frá þér í nokkuð langan tíma. Mér varð svipað innanbrjósts og þér Ólína þegar sjónvarpsfréttamenn leiddu okkur inn í Grafarholtskirkju að fylgjast með helgiathöfninni þar. Ég ætla að svara þessum vangaveltum þínum og spurningum betur  hér á síðunni á morgun.
Með kveðju,
Ögmundur