Fara í efni

Hver er höfundurinn?

Eftirfarandi snilldartexti, leiftrandi af djúpri hugsun, og sem ég afmarka með gæsalöppum svo ég lendi ekki á  Kvíabryggju fyrir hugverkastuld, er eftir þekktan Íslending:
“Það er ... ótrúlegt af þingmönnum að hafa þau orð um sölu ríkisfyrirtækja að þau hafi verið afhent einhverjum. Þarna er vísvitandi verið að reyna að blekkja fólk. Þegar ég fer út í búð eftir mjólk tala ég ekki um að kaupmaðurinn hafi bara afhent mér mjólkina! Ég kaupi mjólkina. Ég greiði fyrir hana, set hana ofan í poka og fer heim og drekk hana. Þegar viðskiptabankarnir voru seldir var það að undangenginni auglýsingu þar sem öllum gafst tækifæri á að skila inn verðhugmyndum og síðan var eignin seld. ... Þingmenn VG reyna hinsvegar að búa til vafasamar myndir af þessu ferli og satt best að segja finnst mér það afar ósmekklegt og í raun algerlega óviðeigandi af alþingismönnum að reyna að koma að ósönnum lýsingum á atburðum.”

Spurt er: hver skrifaði þennan frábæra texta og enn fremur, er nokkur minnsta smuga að finna einhvern veikan blett á þeirri stórkostlegu samlíkingu sem höfundurinn grípur til í sinni flugskörpu röksemdafærslu?
Verðlaun fyrir rétt svar er ein ferna af undanrennu í fljótandi formi sem verðlaunahafi fær í poka og getur drukkið þegar heim er komið, gagnstætt því sem hægt er að gera þegar til að mynda um bankastofnun er að ræða.
Kveðja,
Jón frá Bisnesi

Þakka þér bréfið Jón. Ég er sammála þér að bréfið sem þú vitnar í er aldeilis bráðgott, nánast óviðjafnanlegt. Aldrei hafði mér dottið í hug að það væri svipaðs eðlis að kaupa mjólkurfernu úti í búð annars vegar og hins vegar að kaupa banka af ríkisstjórninni. En þegar manni hefur verið bent á að munurinn á þessu tvennu er í rauninni enginn þá liggur þetta í augum uppi. En þú spyrð hver sé hinn "þekkti Íslendingur" sem skrfaði textann. Ég verð að játa að úr vöndu er að ráða. Eitt er þó ljóst, að það er einhver sem hefur djúpa innsýn í viðskiptalífið og framar öllu, hefur mikla yfirsýn og þar af leiðandi í stakk búinn til að gefa stjórnmálaflokkum einkunnir. Nú er að láta hugann reika. Ef ég finn nafnið, þá birti ég það á síðunni á morgun.
Kveðja, Ögmundur