Fara í efni

HVER BAUÐ Á VÖLLINN?

HVER BAUÐ Á VÖLLINN?

Heill og sæll.
Ég hafði sem endranær gaman af síðasta bréfi Ólínu hér á síðunni um skuggann sem fylgir Halldóri Ásgrímssyni og heitir Steingrímur Hermannsson. Annars eru þeir ótrúlegir þessir spunadrengir Halldórs, ekki vegna uppátækjanna til að koma formanni Framsóknarflokksins á framfæri heldur fyrir klaufaganginn. Ótrúlegt var að fylgjast með því þegar þeir fóru með myndavél inn í samkvæmi á einhverjum leiðtogafundinum og smelltu mynd af Halldóri að skála við aðskiljanlega forseta og forsætisráðherra heimsins. Greinilegt var að hann hafði hlaupið á milli manna með ljósmyndara sinn á hælum sér en myndunum var síðan dreift á íslenska fjölmiðla. Í fréttum var tíundað að Halldór Ásgrímsson hefði átt í viðræðum við helstu leiðtoga heimsins!
Í Bretlandsheimsókn Halldórs í vikunni var mikið látið með fundinn í Downing Street með breska forsætisráðherranum, hinum fyrsta sinnar tegundar í 30 ár, eins og staðhæft var á vef forsætisráðuneytisins. Steingrímur Hermannsson benti á að ekki væri sagnfræðin upp á marga fiska á þeim bænum nú um stundir því hann hefði heimsótt Downing Street fyrir 18 árum! Síðan var náttúrulega allur fréttaatgangurinn með beinum útsendingum frá fótboltavelli í London því Halldór fór jú á völlinn. Það var rækilega auglýst, sennilega talið til vinsælda fallið. En hver skyldi hafa borgað miðann fyrir Halldór og ráðuneytisstjórann á leik Chelsea og Barcelona? Kaupthing, Avion Group, eða eitthvað annað fyrirtæki?
Haffi   

Þakka þér bréfið Haffi. Ekki veit ég hver borgaði á völlinn fyrir þá félaga. Hins minnist ég þegar Halldór var festur á filmu á leiðtogafundinum um árið. Það var reyndar í fyrravor og var um það fjallað hér á síðunni sbr. HÉR
Kv.
Ögmundur