Fara í efni

HVER Á NÁTTÚRUPERLURNAR?

Sæll Ögmundur ég vildi spyrja þig um náttúruperlur í landinu, hvort það sé rétt eða eðlilegra að ríkið fari með umsjón þeirra og sé eigandi þeirra. Nýverið var samið um kaup á Kerinu, sem er náttúruperla og fjölsóttur staður. Víða erlendis er þannig búið um hnúta að ríkið sé eigandi þessara svæða og hefur umsjón með þeim. Hér virðist hafa verið farið aðra leið, að einkaaðilar eigi náttúruperluna og geti haft af henni tekjur í formi aðgöngusölu. Ég er eiginlega ekki viss hvað sé rétt í þessum efnum, ég teldi það eðlilegra að ríkið ætti eignina og hefði opinn aðgang fyrir alla. Þetta minnir óneitanlega á Geysismálið sem þú komst að, menn vildu fara þessa leið líka en það var stöðvað, og áfram er opinn aðgangur að hverunum við Geysi. Gaman væri að fá umræðu um þetta fyrirkomulag, hvað sé rétt eða eðlilegt.

Heill sæll Jón
Ég hef mög eindregna afstöðu til þessa: Náttúruperlur eigi að vera á forræði okkar allra sameiginlega og aðgangur frjáls og opinn. Þar sem náttúruperlur eru á eignarlandi einstaklinga komi ríkið til sögunnar, fjármgni alla nauðsynlega aðstöðu og gera um það samning við landeigendur að þeir fái greitt fyrir sitt amstur, vinnu og ónæði, en aldrei verði þeim heimilt að gera náttúruperlur að gróðalind fyrir fjárfesta sem hafi af þeim arð. Og viti menn, þannig eru lögin en þeim er ekki framfylgt. Með aðgerðaleysi og sofandahætti lætur ríkisstjórnin og Alþingi lögleysuna festa sig í sessi. Það er miður, reyndar með öllu óafsakanlegt. 
Ögmundur