Fara í efni

HVAÐ SKYLDI KFON FÁ FYRIR SÖLU SÍMANS?

Komið hefur í ljós á undanförnum vikum að Kaupfélag Framsóknar og nágrennis (KFON) hefur hagnast verulega á sölu ríkiseigna á liðnum árum. Þannig græddi  kaupfélagsstjórinn sjálfur, Halldór Ásgrímsson, og pólitískir venslamenn hans í það minnsta hundruði milljóna króna á sölu Búnaðarbanka Íslands. Sumir, eins og til að mynda ríkisendurskoðandi, virðast svo gjörsamlega veruleikafirrtir, eða þá vel efnum búnir, að þeir kalla hundruði milljóna og jafnvel milljarða óverulegar upphæðir og þar af leiðandi sáralitla sérhagsmuni. Þá hníga flest rök að því að kaupfélagið hafi fengið í óbein sölulaun – og þar af leiðandi án allra skila á virðisaukaskatti - heljarinnar húsnæði undir starfsemi sína að Hverfisgötu 33, ásamt með prýðilegum byggingarrétti á baklóðinni. Þessi óbeinu sölulaun bárust hægt og sígandi til kaupfélagsins en fyrirframgreiðsla hófst þegar á árinu 1997 eins og fram kemur í makalausri yfirlýsingu KFON frá 3. júlí síðastliðnum þar sem reynt er að klóra yfir spillinguna.

Er nema von að maður bíði eftir fregnum af því hvað Framsóknarflokkurinn fær að launum fyrir yfirvofandi sölu á Landssíma Íslands og hvernig greiðslufyrirkomulagi verður háttað. En ef maður þekkir íslenska “rannsóknarblaðamennsku” rétt, að ekki sé talað um ríkisvaldið, er lítil ástæða til að setja sig í stellingar strax. Fréttir af söluhagnaði KFON munu væntanlega ekki berast fyrr en eftir nokkur ár og verða þá afgreiddar með venjubundnum hætti - án minnstu röksemda verða þær afgreiddar eins og hver annar ómerkilegur uppspuni frá rótum. Hvenær í ósköpunum skyldi verða breyting hér á? Hvenær verður Framsóknarflokkurinn dreginn upp úr spillingarfeninu og kallaður til ábyrgðar?
Þjóðólfur