Fara í efni

HVAÐ MEÐ GUNNAR KRISTJÁNSSON?

Ég var að lesa pistil þinn um næsta útvarpsstjóra og er þér að mörgu leyti sammála, nema hvað ég teldi heppilegra að útvarpsstjóri kæmi ekki úr heimi stjórnmálanna. Ég leyfi mér að stinga upp á Gunnari Kristjánssyni presti á Reynivöllum. Þar fer maður sem væri vel til þess fallinn að gegna þessu mikilvæga hlutverki. Síðan er ég alveg sammála þér að fráleitt væri að skipa í þetta embætti einstakling sem er andsnúinn því að Ríkisútvarpið sé í almannaeign og undir almannastjórn. Því miður hefur það allt of oft gerst að Íhaldið skipi sem stjórnendur opinberra stofnana einstaklinga sem eru andvígir opinberum rekstri. Fólk sem fórnar hugsjónum sínum í eiginhagsmunaskyni gef ég ekki mikið fyrir. Hvað þá stjórnmálaflokk sem misnotar aðstöðu sína að þessu leyti.
Kveðja,
Hafsteinn

Þakka þér bréfið Hafsteinn. Þetta er prýðileg uppástunga. Séra Gunnar á Reynivöllum er afar víðsýnn maður sem sómi væri af að hafa sem útvarpsstjóra.
Kveðja,
Ögmundur