Fara í efni

HVAÐ BORGAR VIÐSKIPTARÁÐ HÁA HÚSALEIGU?

Ég skil ekki hvers vegna þú þarft að vera með þessi ónot í Viðskiptaráð Ögmundur, vegna ábendinga þess hvað varðar vannýtt húsnæði í eigu hins opinbera. Eins og fram kemur í skýrslu ráðsins, stendur gríðarlegur gólfflötur í ríkiseign vannýttur, stundum allan daginn og jafnvel heilu mánuðina. Ég nefni Þjóðleikhúsið sem ég veit ekki betur en sé lokað í sumarleyfum, alla vega lágmarksnýting þá og yfir hádaginn er engin nýting á áhorfendasvæðinu. Hugkvæmir bisnissmenn gætu án nokkurs vafa nýtt gólfplássið til einhverrar nýsköpunar eða sprotastarfsemi.
Og af hverju í ósköpunum er ekki búið að selja Alþingishúsið? Það mætti gera fyrir góðan pening og nýir eigendur gætu síðan selt túristum aðgang og síðan leigt þingsalinn, til dæmis ungliðahreyfingum stjórnmálaflokkanna sem æfingapláss. Þá þyrfti kannski ekki að æfa sig eins mikið þegar á hólminn kemur.
Sunna Sara
p.s. Svo finnst mér þetta flott með kirkjurnar, auðvitað væri hægt að nýta þær betur í einkaeign ef hugvit mannauðsins í sprotafyrirtækjunum sem eignuðust þær væri virkjað. En á meðal annarra orða, hver á húsnæði Viðskiptaráðs og hvað skyldi leigan vera há?