Fara í efni

“Hundrað þúsund milljón”

“Maður á að neita staðreyndum ef þær koma sér illa”. Þetta eru fleyg orð stassjónista Halldórs Laxness í Heimsljósi þar sem hann og Þríhrossið þvælast um við skál. Annar stassjónisti notar nákvæmlega sama orðlag þegar hann neitar fátæktinni í núinu. Þegar honum sýnist svo neitunin ekki duga til þá dregur hann fram töfrastaf eins og Baldur Brjánsson gerði áður en viðkomandi datt inn í borgarstjórn Reykjavíkur eða Harry Potter í bíómyndum dagsins. Flúpps - og Harpa Njáls er ekki lengur til; ekki fyrr en hún gengur aftur og er spurð um það á Stöð 2 hvort hún sé ekta! Það er ekki bara Harpa sem gengur aftur. Laxness galleríið stígur þessa dagana ljóslifandi út úr kosningabaráttu sjálfstæðismanna, stassjónistinn og Þríhrossið í öllu sínu veldi. “Annaðhvort ætlar maður þángað sem maður ætlar eða maður ætlar ekki þángað sem maður ætlar ekki, hundrað þúsund milljón, hvað varðar mig um það.” Aftur er hér vitnað til Halldórs Laxness sem er hér líka að tala um milljarða, að vísu ekki í skattalækkanir en Ögmundur, sæll, og þakka þér fyrir skattatillögur BSRB. Þær eru allrar athygli verðar, þær eru úthugsaðar, ábyrgar og afhjúpa að mínum dómi skattatillagnafylleríið sem stjórnarflokkarnir og Samfylkingin eru á. Þær gera meira þessar tillögur að mínum dómi. Endurskoðendur í stjórnmálum sem þóttu traustir verða ótraustir við lestur tillagnanna og það má Geir H. Haarde eiga að hann áttar sig greinilega á því að sú sérfræðiþekking sem hann ræður yfir í skattamálum í ráðuneyti sínu er kannski ekki jafn algild og hann hélt. Þú spilar þessu út fyrir hönd samtakanna Ögmundur nú tvöhundruð klukkustundum áður en kjörstöðum verður lokað. Mér sýnist í fljótu bragði að tillögurnar muni hafa veruleg áhrif á skattaumræður eftir kosningar óháð því hvers konar ríkisstjórn tekur völdin. Aðeins einn fjölmiðill landsins virðist hafa þrek til að fjalla um málið efnislega en ég spyr: Af hverju ekki fyrr Ögmundur? Ólína 

 
Kæra Ólína.
Ég þakka þér fyrir bréfið og hrósið í garð BSRB. Á þeim vettvangi þótti okkur vænt um að fá það. Hvers vegna ekki fyrr? Það er von að spurt sé, en staðreyndin er sú að úrvinnslan á þessum hugmyndum hefur tekið lengri tíma en við ætluðum. Alltof oft vill brenna við að stjórnamálaflokkar eða samtök  snari tillögum sínum fram á nokkrum dögum eða vikum. Þessar tillögur kostuðu hins vegar mikla hugmyndavinnu og síðan mikla útreikninga sem hagfræðingur BSRB, Gunnar Gunnarsson framkvæmdi og fékk síðan staðfesta hjá Ríkisskattstjóra. Hagfræðingur BSRB á mikið lof skilið fyrir sérlega vönduð vinnubrögð. Hann hefur beitt mikilli hugkvæmni við að nálgast stefnumarkmið BSRB í skattamálum og hef ég trú á að þessar tillögur muni verða okkur leiðarljós út úr því öngstræti sem skattaumræðan hefur verið í um nokkuð langt skeið.
Kveðja,Ögmundur