Fara í efni

HRÁTT KJÖT, FJÖLMIÐLAR OG EIGENDUR ÞEIRRA

Sæll Ögmundur,
Mitt gamla blað Morgunblaðið stendur sig vel í að fjalla um frumvarp landbúnaðarráðherra um innflutning á hráu kjöti. Ég hef hins vegar tekið eftir því að Fréttablaðið sem er í eigu stærsta auðhrings landsins hefur nánast ekkert fjallað um þetta frumvarp. Það er athyglisvert í ljósi þess að í frumvarpinu felst ein róttækasta breyting á íslenskum landbúnaði sem ráðist hefur verið í. Hver ætli sé ástæða þess að þetta víðlesna blað greini ekki frá efasemdum um frumvarpið? Er það vegna þess að eigandi þess mun græða mest á því að frumvarpið verði samþykkt? Það er morgunljóst að verði frumvarpið samþykkt að þá vænkast hagur Baugsveldisins mikið enda geta þeir flutt inn ódýrt kjöt og ráðið verðlagningunni á því. Sjálfsagt verður í fyrstu ódýrt kjöt en þegar búið er að keyra innlendu framleiðsluna í kaf geta þeir algjörlega ráðið verðinu á kjötinu. Og þá kemur nú að spurningunni til þín Ögmundur: Af hverju studdu þið ekki fjölmiðlafrumvarpið á sínum tíma? Þögn Fréttablaðsins um matvælafrumvarpið sýnir að nauðsynlegt er að koma böndum á eign auðhringa á fjölmiðlum. Þeir reka erindi eiganda sinna. Davíð Oddsson hafði bara rétt fyrir sér og þið rangt.
Halldór Kári

Þakka þér bréfið Halldór Kári. Þetta er vissulega sjónarmið hjá þér varðandi eignarhald á fjölmiðlum. Annars ekkert einhlítt í þessu efni. Fátækur fjölmiðill, óháður auðhringum, getur líka orðið ofurseldur auglýsendum sem hafa líf hans í hendi sér. Besta vörnin gegn misnotkun peningamanna eru öflugar fréttastofur með öflugu fólki. En það er umhugsunarvert sem þú bendir á - ekki síst fyrir fréttamenn Fréttablaðsins,
Kv.
Ögmundur