Fara í efni

HÖFÐA TIL SAMVISKUNNAR

Sæll Ögmundur. Ég heiti Helena Stefánsdóttir og er kvikmyndaleikstjóri. Ég er búsett í Svíþjóð þar sem ég stunda framhaldsnám. Ég get því ekki beitt mér með beinum hætti gegn því óréttlæti sem lögregluvaldið, í þínu umboði, hefur beitt móður og þrjár stúlkur sem senda á til Danmerkur, að mér skilst á morgun, sunnudag. Árið 2009 barðist ég af fullum krafti í marga mánuði fyrir því að Nour B. M. Al-azzawi, 19 ára flóttamaður frá Írak kæmist aftur til Íslands. Í þeirri baráttu, átti ég einstaklega góð samskipti við Rögnu, sem þá gegndi embætti dómsmálaráðherra. Með hennar frábæra stuðningi, sigraði ég í baráttunni við kerfið og réttlæti náði fram að ganga. Þess vegna veit ég að ráðherra getur beitt sér - það er bara spurning um að vilja það. Ég freista þess að höfða til þinnar betri samvisku og beita þér snarlega fyrir hönd þessara stúlkna, áður en lögregluvaldinu tekst að senda þær í flugi til ofbeldismanns. Það er slæmt að vera svo upptekin af því að gera það sem er "rétt" samkvæmt "kassanum", að það gleymist að gera hið rétta í stöðunni. Ég þekki þessa fjölskyldu ekki neitt og hef engra persónulegra hagsmuna að gæta. En ég hef sjaldan skammast mín svo gífurlega og ólýsanlega fyrir það vera Íslendingur - og hef ég þó orðið vitni að ýmsu af hálfu lögreglunnar.
Kær kveðja og þökk,
Helena Stefánsdóttir