Fara í efni

HLEGIÐ AÐ SKULDA-LEIÐRÉTTINGU - EÐA HVAÐ?

Ég er búinn að hitta þó nokkuð af hátekjufólki sem keypti sér dýrar fasteignir eða tók glórulaus lán fyrir hrun og fékk margt hámaks eða háa svokallaða "skuldaleiðréttingu". Það hlær dátt að þessu lýðskrumi Sigmundar, nefnt hefur verið við mig af sumu þessu fólki að það hafi ekkert þurft þessa leiðréttingu, nú splæsi það í nýjan flatskjá, sumir búnir að því, eða eithvað álíka. Tuttugu miljarðar af áttatíu í þessari ætluðu "skuldaleiðréttingu" fóru til velstæðs fólks og auðmanna í stað þess e. t. v. að styrkja innviði ríkisins t. d. heilbrigðis- og menntamál.
Ögmundur talar um forsendubrest, það er enginn forsendubrestur til í þessu samhengi í auðvaldþjóðfélagi, aðeins framboð og eftirspurn, kreppur og góðæri, sem fólk verður að sætta sig við ef það vill á annað borð búa í slíku þjóðfélagi eins og Hannes H. Gissurarson talar um varðandi orsök hrunsins, hann ætti að vita það, var hann ekki arkitektinn að því? Ögmundur, sem um margt er góður stjórnmálamaður, ætti að hafa þessa hluti í huga áður en hann lofsyngur kosningabrellur Sigmundar og hans nóta.
Guðlaugur Gísli Bragason

Sæll Guðlaugur Gísli  og þakka þér fyrir bréfið. Það er rétt að í kapítalísku þjóðfélagi gengur á með sveiflum framboðs og eftirspurnar. Hlutverk stjórnmálanna er að búa til ramma utan um efnahagsstarfsemina og grípa til ráðstafana sem gera lífið sem bærilegast fyrir sem flest okkar og horfi ég þá fyrst og fremst til hins almenna launamanns. Ég veit ósköp vel að Hannes Hólmsteinn og félagar vilja að við stöndum bara álengdar og gónum aðgerðalaus á því alls ekki megi grípa inn í gangverk kapítalismans.
Staðreyndin er sú að í kjölfar hruns varð hér mikið verðbólguskot sem hækkaði lánastabbann í landinu langt umfram það sem nokkur maður hafði gert ráð fyrir. Mér finnst vera í góðu lagi að kalla það forsendunbrest. Mér hefur einnig þótt það vera í góðu lagi að ætlast til þess að lánveitandi og lántakandi skiptu með sér byrðunum af þessum bresti. Út á það gengur leiðréttingin sem mér finnst í góðu lagi að kalla svo.
Ekki hef ég hitt alla þessa hlæjandi auðmenn sem þú nefnir - sóttu um stuðning á forsendum sem þeir sjálfir segjast fyrirlíta! - en hina hef ég margoft hitt sem eru að sligast undir lánum sínum og fengu enga bót af svokallaðri 110% leið einfaldlega vegna þess að skuldsetningin náði ekki því marki. Tekjurnar hafa hins vegar aðeins dugað fyrir afborgunum ef viðkomandi skuldari neitaði sér um flest umfram nauðþurftir. Þetta fólk hlær ekki illkvittnislega þegar létt er á byrðum þess.
Þetta fólk er ánægt þótt það hefði viljað meira og fyrr. Það er nefnilega ekki verið að gefa neinum neitt. Það er verið að láta oftökumenn skila einhverju til þeirra sem oftekið var af.
Með kveðju,
Ögmundur Jónasson