Fara í efni

HJÖRTUR ÓSAMMÁLA ÞORSTEINI - ÉG SAMMÁLA HIRTI

Sæll Ögumundur.
Í leiðara Fréttablaðsins 29. ágúst fjallar Þorsteinn Pálsson um þátt Valgerðar í því að leyna upplýsingum fyrir Alþingi. Þorsteinn telur ekki réttmætt að krefjast afsagnar ráðherrans. Í fyrsta lagi vegna þess að ráðherranum bar engin lagaskylda til að koma upplýsingunum á framfæri við Alþingi og hins vegar vegna þess að ráðherrann verður "ekki sakaður um að hafa hindrað að kjörnir fulltrúar almennings kæmust á snoðir um efni skýrslunnar. Það má til að mynda ráða af því einu að skýrslan var afhent Landsvirkjun. Í stjórn hennar sitja lýðræðislega kjörnir fulltrúar löggjafarsamkomunnar ...", eins og segir í leiðaranum.
Þetta er hæpin röksemdarfærsla hjá Þorsteini en mjög í ætt við þær grautarlegu hugmyndir um lýðræði sem íslenskir stjórnmálamenn hafa yfirleitt. Enginn hefur haldið því fram að Valgerður hafi framið lögbrot með því að koma greinargerð Gríms Björnssonar ekki á framfæri við Alþingi. Hins vegar var það siðferðisleg og pólitísk skylda hennar. Það er misskilningur hjá Þorsteini Pálssyni að stjórnarmenn í Lv. geti aflétt ábyrgð ráðherra gagnvart Alþingi. Slíkt er ekki hægt með nokkrum hætti. Ráðherra er ábyrgur gagnvart Alþingi hvernig sem allt veltur og snýst. Það liggur fyrir rökstuddur grunur um að Valgerður hafi leynt Alþingi mikilvægum upplýsingum um "stærstu framkvæmd Íslandssögunnar". Upplýsingum sem varða ekki aðeins gríðarlega fjárhagslega hagsmuni heldur öryggi almennings. Í öllum lýðræðisríkjum í kringum okkur myndi ráðherra sem lægi undir slíkum grun eða ámæli segja af sér, þótt ekki væri nema af pólitískum og siðferðislegum ástæðum. - Stjórnarfar á Íslandi þarf að breytast. Það væri reyndar fróðlegt að vita hvort greinargerð Gríms Björnssonar komst í hendur allra fulltrúa í stjórn Lv, áður en Alþingi tók ákvörðun um Kárahnjúkavirkjun. Veist þú um það mál?
Hjörtur Hjartarson

Heill og sæll Hjörtur.
Ég er algerlega sammála röksemdafærslu þinni. Varðandi upplýsingar til stjórnarmanna í Landsvirkjun, þá mun ég kanna það sérstaklega og sjá til þess að upplýsingar um það efni birtist hér á síðunni.
Með kveðju,
Ögmundur
p.s. Eftir að ég skrifaði þetta svar hefur stjórnarformaður Landsvirkjunar staðfest að stjórn Lv. fékk ekki skýrsluna í hendur, sbr. HÉR. Jóhannes Geir, stjórnarformaður er hins vegar lítilþægur að hætti Framsóknarforkólfa og segir að hann beri fullt traust til stjórnenda Landsvirkjunar.... Ekki er það beint traustvekjandi fulltrúi þjóðarinnar sem sjálfum hefur verið treyst til að gæta hagsmuna þjóðarinnar - sjálfum en ekki í gegnum aðra!
Hvað um það, botninn er nú endanlega dottinn úr röksemdafærlsu Þorsteins Pálssonar. Fróðlegt verður að lesa næsta leiðara um efnið því Þorsteinn Pálsson má eiga að hann vill vera rökrænn í hugsun og tekst það oft bærilega vel.