Fara í efni

Hinn fullkomni dónaskapur - Davíð niðurlægður

Sæll Ögmundur.
Oftast er ég ósammála málflutningi og afstöðu Davíðs Oddssonar og Björns Bjarnasonar, en ég virði skoðanir þeirra eins og annarra og viðurkenni fúslega að Björn Bjarnason er sá borgaralegi stjórnmálamaður íslenskur sem býr yfir hvað víðtækastri þekkingu á utanríkismálum
Í Morgunblaðinu er minnt á, fyrir tilstilli Björns Bjarnasonar, vandræðin sem Helmut Schmidt rataði í á áttunda áratugnum þegar hann tók að sér að berjast fyrir því að skammdrægum nifteindarsprengjum yrði komið fyrir í Vestur-Evrópu. Björn Bjarnason er kurteis maður og bendir á það vinsamlegast að Helmut hafi verið misboðið þegar Carter-stjórnin skildi hann eftir útí því pólitíska feni sem hann var lentur í stuðningi sínum við áherslur Bandaríkjamanna án þess að rétta honum hjálparhönd. Ég segi Björn er kurteis maður vegna þess að í hliðstæðunni sem hann dregur fram þegar hann fjallar um samskipti Bandaríkjamanna við íslensk réttkjörin stjórnvöld getur hann þess ekki, að áfallið sem hinn grandvari þýski stjórnmálamaður varð fyrir, svikinn af þeim sem hann trúði á og treysti, leiddi til þess að hann dró sig í hlé úr þýskum stjórnmálum fyrr en efni stóðu til. Bandaríkjamenn komu þá, eins og nú, fram við réttkjörin stjórnvöld samstarfsþjóðarinnar af fullkomnum dónaskap. Um þetta get ég verið Birni Bjarnasyni sammála þótt ég deili ekki skoðunum hans í utanríkismálum. Ég sakna þess hins vegar vegna þekkingarinnar og reynslunnar sem Björn hefur einmitt á þessu sviði utanríkismála að hann skuli ekki vera spurður út úr af fjölmiðlum af einhverju gagni. Þær skoðanir sem hann hefur sett fram um málið eru í ljósi stöðu hans og sögu athyglisverðustu ummælin um utanríkismál í lengri tíma. Tré virðast hér skyggja á skóginn hjá fjölmiðlamönnum. Þegar svo haft er í huga að aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna sem hér gerði stuttan stans og átti enn styttri fund með Davíð Oddssyni, forsætisráðherra, en notaði hálfa aðra klukkustund til að tala máli bandaríkjastjórnar við þá Styrmi Gunnarsson og Boga Ágústsson, sem enginn hefur kosið til eins eða neins, er þá ekki niðurlæging forsætisráðherra landsins fullkomnuð Ögmundur? Hvað finnst þér? Mér líkar ekki að forsætisráðherra þjóðarinnar sé niðurlægður alveg burtséð frá því hver á í hlut.

Ólína