Fara í efni

GRÓÐI OG SKATTAR - SKATTAR OG GRÓÐI

Sæll Ögmundur.
Fyrst nokkur orð um danska blaðamennsku sem þú þekkir eftir ár þín sem fréttamaður meðal frændþjóðarinnar. Það sem Ekstrablaðið er að gera undir stjórn Hans Engells fyrrverandi formanns systurflokks Sjálfstæðisflokksins er fremur grunnfærnislegt og einkennist af stráksskap að mínum dómi. Þar hræra menn saman björgólfum og baugum í eina hringavitleysu og binda svo rauða slaufu á allan pakkann með því að undirstrika að allt sé þetta þó fullkomlega löglegt að dönskum lögum. Íslendingar geri bara eins og fjárfestingasjóðir gera sem reknir eru af dönskum. Kannski snýst allt upphlaupið við Ráðhústorg að einhverju leyti um Fréttablaðið danska og kannski eru ekki þeir sömu ókleifu Kínamúrarnir milli ritstjórnaskrifstofa Ekstrablaðsins og Politikens og Jón Ásgeir Jóhannesson kunngjörði að reistir hefðu verið milli ritstjórna baugsmiðlanna þegar deilurnar um fjölmiðlafrumvarpið stóðu sem hæst hérna um árið.

Ég er stödd í Danmörku og hef lúslesið Ekstrablaðið og finnst blaðamennirnir margverðlaunuðu missa bæði þráðinn í eigin umfjöllun og missa af nokkrum veigamiklum þáttum íslenska "efnahagsundursins". Til dæmis því að ríkisstjórn fyrrum kollega ritstjóra danska Ekstrablaðsins bjó til forsendurnar sem íslensku útrásarfyrirtækin svokölluðu eru háð. Hér á ég við það hvernig ungur bankastjóri varð til upp úr Fiskveiðasjóði, hvernig skattaumhverfi íslenskra fyrirtækja hefur verið breytt með markvissum hætti, hvernig eignir ríkisins voru seldar á brunaútsölu og hvernig menn hafa hagað lagasetningu hér innanlands á sviði samkeppnismála svo eitthvað sé nefnt. Greiningu dönsku verðlaunablaðamannanna á þessu sviði vantar og ekki fara okkar ágætu fjölmiðlamenn í svona mál sem er efni í langar vangaveltur.

Á mbl.is í dag sá ég eftirfarandi frétt um hagnað íslensku bankanna: ";Samanlagður hagnaður bankanna fjögurra, Glitnis, Kaupþings, Landsbankans og Straums Burðaráss, nam 143,2 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum ársins. Á sama tímabili í fyrra nam hagnaður bankanna 80,2 milljörðum króna. Á þriðja ársfjórðungi nam hagnaður bankanna 51,4 milljörðum króna samanborið við 27,1 milljarð króna á sama tímabili í fyrra. Hagnaður Glitnis nam 28,9 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum ársins samanborið við 15,4 milljörðum króna á sama tímabili í fyrra. Hagnaður Kaupþings nam 67,2 milljörðum króna samanborið við 34,5 milljarða króna á fyrstu níu mánuðum síðasta árs. Hagnaður Landsbankans nam 26,2 milljörðum króna samanborið við 16,2 milljarða á fyrstu níu mánuðum síðasta árs. Hagnaður Straums Burðaráss nam 20,9 milljörðum króna samanborið við 14,1 milljarð á fyrstu níu mánuðum ársins í fyrra. Á þriðja ársfjórðungi nam hagnaður Glitnis 8,8 milljörðum króna en nam 4,8 milljörðum á sama tímabili í fyrra. Hagnaður Kaupþings nam 35,4 milljörðum króna samanborið við 9,7 milljarða á þriðja ársfjórðungi í fyrra. Hagnaður Landsbankans nam 5,7 milljörðum á þriðja ársfjórðungi samanborið við 6,1 milljarð í fyrra. Hagnaður Straums Burðaráss nam 1,5 milljörðum króna samanborið við 6,5 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi í fyrra."

Athyglisvert og ánægjulegt hve vel íslenskum bönkum gengur í viðskiptaumhverfinu sem þeim hafa verið sköpuð síðustu árin og óskandi að einstaklingunum hefði verið sköpuð hliðstæð skilyrði. Bankarnir þrír sem til urðu með mismunandi ríkisaðstoð síðustu fimmtán árin hagnast á níu mánuðum um rúmlega 120 milljarða króna. Á sama tíma senda menn út upplýsingar um að gullkálfarnir þrír greiði tíund af níu mánaða hagnaði ársins í skatta vegna liðins árs. Tíund! Eru fjölmiðlarnir, stjórnmálamenn og almenningur staurblindir Ögmundur?

Af hverju eru rýrar skattgreiðslur af ofsagróða ekki fréttaefni? Hvernig má það vera að afkomuupplýsingar banka og skattgreiðslur eru lesnar upp eins og veðurfréttir án frekari umræðu og gagnrýni? Ég hef heyrt menn segja að ef þrengt verður að bönkunum þá fari þeir úr landi. Starfsemi þeirra sé alþjóðleg og mikilvægt að halda fyrirtækjunum hér. Ég vildi snúa þessu við og spyrja: Höfum við efni á þessu dýru drengjum? Er siðferðilega rétt að búa bönkum skattaskjól eins og tölurnar bera með sér? Er ekki betra að láta þetta lið sigla sinn sjó og starfa í útlöndum? Slyppum við þá ekki við að leggja lóð okkar á vogarskál óréttlætisins sem við gerum nú með því að versla við bankana? Legg fyrir þig dæmi Ögmundur, sem mætti nota á samræmdum prófum í framhaldinu: Íslenskir bankar græða 120 milljarða á níu mánuðum þeir greiða tíund vegna gróðans á síðasta ári eða um 12 þúsund milljónir. Hve mikið þyrfti hver Íslendingur að greiða meira í beina skatta á ári til að greiða jafn mikið og bankarnir gerðu vegna liðins árs? Burt með þá sem bera ábyrgð á svona óréttlæti og þá sem nærast á því. Menn breiða ekki yfir það með hoppi og hí með listamönnum í Kvosinni eða með því að ganga í prósessíu inn kirkjugólf í úthverfunum og gefa smámynt til kirkjustarfs.
Kveðja,
Ólína