Fara í efni

GRÆÐGI Á VILLUGÖTUM!

Í tilefni að https://www.ogmundur.is/is/fra-lesendum/vid-eigum-oll-geysi-og-lika-kerid Eiginlega hefði átt að grípa í taumana strax þegar "eigendur" Kersins notuðu aðstöðu sína og bönnuðu komu erlendra þjóðarleiðtoga á staðinn af pólitískum ástæðum. En nú er það alveg orðið ljóst að einkaaðilum er ekki treystandi fyrir náttúruperlum landsins. Fordæmið sem þessi aðgerð gefur er ólíðandi. Nú á að rukka aðgang að Geysi... hvernig er þá með Gullfoss? Dettifoss? Námaskarð, Kröflu, Laka svæðið, Öskju, Herðubreiðalindir, Arnarstapa, Dimmuborgir, Jökulsárlón, Seljalandsfoss, Reynisfjöru, Ásbyrgi, Þjorsárver og Fúlapytt? Og alla hina staðina? Rúntur um Ísland verður eins og orðið er með laxveðitúrana, skemmtun sem venjulegum landsmönnum er ekki aðgengileg.
Náttúruperla er í eðli sínu ódýr skemmtun. Hún bara er. Það þarf ekki að ráða trúð eða hljómsveit til að gera hana áhugaverðari, það þarf ekki að byggja undir hana eða fúaverja annaðhvert ár. Það eina sem þarf að gera er að gera hana aðgengilega fyrir gesti án þess að hún skemmist. Við fyrstu sýn virðist manni það segja mikið um hugmyndaleysi og hreinlega leti þeirra sem reka aðstöðuna við Geysi að aðgangseyrir sé það skásta sem þeir geta komið upp með til að afla tekna til viðhalds aðstöðunnar á staðnum.
Það er vart til að trúa, að það snilldarfyrirbæri sem einkarekstur getur oft verið takist ekki að ná nauðsynlegum tekjum útúr þeim hundruðum þúsunda ferðamanna sem heimsækja staðinn hvert ár. Enda líka trúi ég því ekki.
Þetta er græðgi á villugötum.
Ef að landeigendur geta ekki haldið þessum stöðum opnum, samhliða því að sjá um að þar sé forsvaranlega gengið um, á sama tíma og þeir raka inn fjármunum í tengdri starfsemi þá hafa þeir fyrirgert þeim forréttindum að hafa umsjón með náttúruperlum landsins. Það er ekkert flóknara.
Jón Þ.