Fara í efni

GÓÐ KVEÐJA

Ágæti Ögmundur.
Í engu hefur þú brugðist mér, allra síst í nýafstöðnu Landsdómsmáli.
Ég hef ekki gleymt því að þú gagnrýndir á sínum tíma einkavæðingu bankanna þegar vildarvinir þáverandi stjórnvalda fengu þá á silfurfati og lögðu grunninn að hruni íslensku þjóðarinnar.
Ég hef ekki gleymt að þú lagðir til fjölda aðgerða til að stemma stigu við flugi okkar fram af bjargbrúninni; skatt á fjármagnsflæði og aðskilnað fjárfestingabanka og almennrar bankastarfsemi. Eða þegar þú lagðir til að bankarnir færu úr landi sem var eina skynsamlega ráðstöfunin á þeim tíma. Þeim öfgafullu viðbrögðum sem tillögur þínar fengu hafa aðrir e.t.v. gleymt, en ekki ég.
Ég hef ekki gleymt því að þú varst óþreytandi í baráttunni fyrir verndun umhverfisins þegar náttúruspjöll voru unnin á gríðarlegu landsvæði við Kárahnjúka.
Ég hef ekki gleymt að við hrunið var kallað eftir nýrri tegund stjórnmála; stjórnmála án flokksaga, stjórnmála samræðu og sáttagjörða og aukinnar virðingar fyrir Alþingi. Nú keppast forvígismenn hins síðastnefnda við að níða skóinn af vinnustað sínum og samtalið á lítinn hljómgrunn meðal misþroskaðra þingmanna. Krafan um flokksaga hefur sjaldan verið sterkari og skoðanir þínar á smæstu málum virðast nægja til að setja þingheim á hliðina.
Nú þegar þú hefur með góðum rökum stutt afstöðu þína í Landsdómsmálinu; afstöðu sem leiðir rökrétt af orðum þínum og gjörðum í gegnum tíðina, virðist það vera markmið einhverra fyrrverandi stuðningsmanna þinna að níða af þér æruna og ævistarfið.
Slíkur málflutningur er ósanngjarn, óábyrgur og marklaus.
Hvað var það sem þeir studdu - eða sögðust styðja -  ef ekki heiðarleiki, sanngirni og rökfesta? Og hvað hefur breyst?
Jafnvel þótt við hefðum orðið ósammála í þessu máli hefði það hvergi kastað rýrð á það góða starf sem þú hefur unnið í mína þágu og annarra svo árum skiptir. Það máttu vita að þú átt fjölda stuðningsmanna hverra minni nær lengra en viku aftur í tímann.
Hafðu þökk fyrir þín góðu störf Ögmundur.
Stuðningsmaður