Fara í efni

Glæsilegur sigur Ólafs!

Eins og fleiri er ég bæði hrærð og glöð yfir því mikla trausti sem íslenska þjóðin sýndi forseta vorum í kosningunum sl. laugardag. Þeim mun dapurlegra finnst mér líka að horfa upp á hælbítana Davíð Oddsson og attaníossa hans þegar þeir rembast við að gera lítið úr glæsilegum sigri forsetans. En sem betur fer hafa virtir og viðurkenndir fræðimenn og álitsgjafar, sem og forsetinn sjálfur, varist þessum lúalegu árásum fimlega. Þó vantar dálítið upp á að mínu mati og þar sem ég er gamall nemandi dr. Ólafs Ragnars í stjórnmálafræðunum, og kann því ýmislegt fyrir mér þó ég segi sjálf frá, vil ég minna á eitt mikilvægt atriði sem fræðimönnum og álitsgjöfum hefur yfirsést – og móðga þó vonandi engan - en það eru forsetakosningarnar árið 1952. Þær sýna í hnotskurn, og í sögulegu samhengi sem er auðvitað ómissandi sjónarhorn, hve glæsilegt endurkjör Ólafs er í raun og veru. Þannig var að árið 1952 slógust um forsetaembættið þrír kappar: Ásgeir Ásgeirson, Bjarni Jónsson og Gísli Sveinsson. Allir til samans fengu þeir aðeins 68.224 atkvæði á meðan Ólafur halaði einn og óstuddur inn hvorki meira né minna en 90.662 atkvæðum á sl. laugardag! Og í ljósi þessa hlýt ég að spyrja: Þarf frekari vitnanna við um glæsilegan sigur Ólafs? Það held ég ekki. Að lyktum langar mig svo að óska þjóðhöfðingja vorum alls hins besta um leið og ég vona að í ljósi þessara mikilvægu upplýsinga, sem ég hef hér dregið fram í dagsljósið, muni aðeins sljákka í þeim dónum og lítilmennum sem hafa með öllum ráðum reynt að gera lítið úr þeirri prússnesku kosningu sem okkar ágæti forseti hefur nú upp á vasann.
Auður Sigurrós Arnardóttir