Fara í efni

GETUR VERIÐ AÐ HJARTAÐ VANTI Í SAMFYLKINGUNA?

Svo virðist sem ríkisstjórnin muni spila út kosningaloforðum Samfylkingarinnar sem sínu framlagi í samningaviðræðum SA og ASÍ. Þar má nefna úrbætur í húsnæðismálum, lagfæringar á frítekjumörkum og fleira. Samfylkingarráðherrar munu kalla þetta klókindi - að nota sömu loforðin tvisvar - en aðrir blekkingar. Flokkurinn og forystumenn hans hafa átt erfitt með að sjá muninn á þessu tvennu. En munurinn er þessi: klókindi eru það að efna loforð við erfiðar aðstæður en blekking er það þegar maður svíkur loforð og þykist ekki taka eftir því. Hvor leiðin sem er getur skilað mönnum í valdastóla, en klókindaaðferðin þarfnast dugnaðar og hæfileika en blekkingunum nægir samviskuleysið. "Suma er alltaf hægt að plata, suma er stundum hægt að plata, en það er ekki hægt að plata alla alltaf", sagði Abraham Lincoln. 
Rétt er að halda því til haga fyrir næstu kosningar að það þarf verkfallshótanir til að knýja Samfylkingarríkisstjórn til efnda. Hjartað slær greinilega ekki vinstra megin á þeim bæ og sjálfir segjast þeir ekki hafa hjartað hægra megin. Getur verið að það hreinlega vanti í þá hjartað?
Hreinn Kárason