Fara í efni

GERÐIST EKKERT?

Gerðist ekkert? Þegar forsetinn er spurður um afleiðingar þess að hann vísaði 2 málum til þjóðarinnar þá svarar hann ávallt: "Það gerðist ekkert þrátt fyrir hrakspár ýmissa manna"!! Spyrillinn gerir aldrei athugasemdir við þetta svar. Árið 2004 vísaði forsetinn svokölluðu fjölmiðlafrumvarpi til þjóðarinnar. Þetta varð til þess að frumvarpið var dregið til baka. Fjölmiðlafrumvarpið miðaði að því að koma í veg fyrir að einstakir aðilar gætu náð yfirburðastöðu með eignarhaldi á fjölmiðlum í landinu og það miðaði einnig að því að gera fjölmiðlana sjálfstæðari. Því miður varð þetta frumvarp ekki að lögum. Fjölmiðlarnir héltu áfram að vera ósjálfstæðir og stjórnast af "útrásarvíkingum". Það er engum vafa undirorpið að þessir gagnrýnislausu fjölmiðlar áttu hvað stærstan þátt í hruni Íslands haustið 2008. Hinu málinu, Icesave, var vísað til þjóðarinnar í ársbyrjun 2010 og var fellt. Það má taka undir að afleiðingar þess voru að ekkert gerðist. En það var einmitt það sem ekki mátti gerast. Ísland hélt áfram að vera í helkulda á erlendum mörkuðum með þeim afleiðingum að ekki hefur hægt að byggja atvinnulífið upp. Það gerðist ekkert á vinnumarkaðnum annað en að atvinnuleysið jókst. Ég fullyrði að þjóðin hafi tapað mun meira á að fella samninginn í ársbyrjun 2010 heldur en þann "ávinning" sem varð af nýjum samningi.
Pétur

Þakka þér bréfið. Ég er þér fullkomlega ósammála. Frestun samninga hefur sparað RÍKISSJÓÐI gríðarlega peninga. Líkindaspár  um hvaða áhrif frestun hafi haft á þjóðarbúið er yfirleitt eins og hjá þér fullyrðingar án þess að tilgreind séu dæmi. Ástæðan fyrir erfiðleikum Íslendinga er ekki sú að erlent fjárfestingarfjármagn skorti heldur skuldbindingar sem hlaðist hafa á almenning. Baráttan gengur út á að halda þeim í lágmarki. Það er fullveldisbarátta Íslands. Um það hefur þetta Icesave mál snúist.
Helkuldinn á mörkuðum sem þú nefnir, skýringalaust - ertu að tala um fleiri sendingar einsog Magma?
Síðan hitt sjónarmið þitt hve vitlegra sé að láta menn einsog þig hafa vit fyrir þjóðinni á þingi en að hún taki til sín valdið milliliðalaust höfum við rætt oft hér á síðunni. Þar erum við ósammála í grundvallaratriðum. Mér finnst tími forrræðishyggju liðinn og kannski átti sá tími aldrei að koma. 
Ögmundur