Fara í efni

FYRIRTÆKIN ALÞJÓÐLEG NEMA ÞEGAR NOTA ÞARF UTANRÍKISÞJÓNUSTUNA ÓKEYPIS

Þakka þér fyrir grein þína um útrásina og hlutverk forseta Íslands í því samhengi. Í mínum huga er nú mál málanna að byggja upp dýpri pólitíska umræðu um útrásina og er þetta ágætur upptaktur. Útrásin er að mínu viti annars vegar heimild smásölubankanna á Íslandi til að gambla með innistæður og lífeyrissjóði eftirlitslaust og hins vegar með eftirlitslausri skuldasöfnun (Ísland er skuldugasta þjóð heims, skv. OECD). Þegar verið er að hafa áhyggjur af stöðu íslensku fyrirtækjanna, þá segjast þau vera alþjóðleg, en þegar á að nota utanríkisþjónustuna til ókeypis markaðsfærslu, þá eru þau íslensk! 
Ég vil gjarnan vekja athygli þína og lesenda síðu þinnar  á góðu innleggi Markúsar Möller hagfræðings, sem birtist í Mogga 21 okt 2007. Leyfi mér að láta það fylgja með.
Eyvindur

Auðlindir og grínorka
eftir Markúsi Möller

ÞEGAR menn bjuggust til að kaupa sig út úr hinni forkostulegu Grínorkusýningu með því að selja helminginn af Hitaveitu Suðurnesja, kom í ljós að þar með myndi prívatiserast slatti af jarðhita. Þá bunaðist upp úr frjálshyggjumönnunum í borgarstjórn að opinberir aðilar ættu ekki að standa í áhætturekstri. Eftir samhenginu er sjálfgefið að skilja það þannig nú eins og áður, að einkaaðilar skuli eiga auðlindir en skattgreiðendur eldgos, jarðskjálfta og hamfaraflóð. Merkileg getur hún verið, þessi áhættufælni. Af þessu tilefni er vert að árétta eftirfarandi, sem ég hef oft sagt áður, en vísast ekki nærri nógu skýrt:
Í galopnum hagkerfum - eins og hinu íslenska - sem treysta að hluta á venjulegar útflutningsgreinar - eins og hið íslenska - verða auðlindir  einkaeign ekki til að bæta hlut launafólks.
Ástæðan er sú að þegar fjármagn er innflutt, ákveða "venjulegu"útflutningsgreinarnar laun, mæld í erlendri mynt. Þær þenjast út ef laun eru lægri og keyra þá launin upp aftur. Þær dragast saman ef laun eru hærri og þrýsta laununum þá aftur niður. Af þessu leiðir að ef venjulegt fólk á að njóta góðs af auðlindum, þarf það að fá auðlindarentuna beint í æð, með arðsúthlutun eða skattalækkunum eða skýrt afmarkaðri þjónustu. Auðvitað getur verið handleggur að verja slíkar kjarabætur fyrir óvitum, en einu geta menn treyst: Kjarabæturnar koma ekki af sjálfu sér í gegnum launin eftir einkavæðinguna.
Því er ljóst, að ef ofsatrúarfrjálshyggjan fær að leika lausum hala í íslenskum stjórnmálum - eins og vofan, sem Churchill lýsti, gerði í stjórnmálum Austur-Evrópu - þá losar hún þjóðina við eignir sínar. Þá verður jafngott að búa á Íslandi og ef hér væru engar auðlindir. Der er noget skævt i byrådet.
MARKÚS MÖLLER,