Fara í efni

FÝLUPÚKAR OG KLÚÐUR

Sæll Ögmundur.
Einhvern veginn svona hófst Silfur Egils á sunnudag: Nú er ég kominn með  nokkra frambjóðendur til stjórnlagaþings, sagði Egill Helgason í þætti sínum, og hann bætti því við, að fólkið sem hann kynnti samviskulega 
til sögunnar degi eftir kosningarnar, hefði ekki mátt sjást í gær,  ekki í fyrradag, eða allt frá því það bauð sig fram til setu á  stjórnlagaþingi. Úff.

Hann sagði þetta afsakandi, þáttastjórnandinn, sennilega með óbragð í  munni, af því hann hefur eins og við velt því fyrir sér hvernig átti  að glæða áhuga manna fyrir persónukjöri á stjórnlagaþing, án þess nokkurn tíma að fá að sjá fólkið sem bauð sig fram?
Ríkisútvarpið féll á þessu prófi, eins og það féll á prófinu þegar það tók aftur frétt sem byggðist á áliti manns sem talað hafði verið við. 
- Ég var alls ekki á grafhýsi Leníns haustið 1939, sagði Stalín, þegar  búið var að þurrka hann út af myndinni.

Og hvernig átti áhugi manna að vaxa og dafna á kosningunni með frjóum umræðum um hlutverk og hugsanlegar niðurstöður stjórnlagaþingsins, þegar ríkisútvarpið reyndi að bjarga andlitinu með því að leggja tvær 
 spurningar fyrir 550 manns og útvarpa þegar fólk var við vinnu sína. Eða með því að birta upplýsingar um frambjóðendur á flettiskiltum á nóttunni í sjónvarpi. Þurfti háskerpusjónvarp, sjónvarpsmerki sent á ljósleiðara, til að greina stærsta letrið á skiltunum.

Og í spurningaleiknum á rás 1 var ekkert verið að þvæla málin. Fyrsta  spurning: Af hverju þarf að breyta stjórnarsskrá lýðveldsins? Önnur spurning: Af hverjum býður þú þig fram til stjórnlagaþings? Síðan ekki  söguna meir. Ellefu hundruð svör fólks sem átti náttúrulega ekki að láta hafa sig út í svona fíflaskap.

Innan um og saman við var svo rætt við og útvarpað viðtölum við Gunnar Helga Kristinsson. Hann sagði þjóðinni að þetta væri svo flókið allt  saman, erfitt í framkvæmd og stór spurning um gildi þingsins yfirleitt. Og fleiri fræðimenn úr háskólanum voru leiddir, eða  reiddir, fram til að tala niður kosningarnar. Þetta hafði aldrei verið gert áður, sögðu þeir, þingið myndi áreiðanlega ekki taka mark á  niðurstöðunum. Úff.

Í ljósi framlags nokkurra fýlupoka í fræðimannastétt og hjá ríkisútvarpinu, á áttatíu ára afmæli þeirrar stofnunar, voru  kosningarnar stórfelldur sigur og þeim til sóma sem fóru á  kjörstað. Óskandi er að kjörnir fulltrúar standi sig svo vel og skili svo góðu verki að ekki verði hægt að hunsa tillögurnar.

Það er svo umhugunarefni fyrir þig og flokk eins og VG, sem ræddir breytingarnar sem gerðar voru á RÚV á sínum tíma í hundrað þrjátíu og  sex daga, hvort ekki þarf að gera þá ábyrga fyrir rúv-klúðrinu, sem bera lagalega og siðferðilega ábyrgð á því, þ.e. menntamálaráðherra, formann stjórnar RÚV, útvarpsstjórann, dagskrárstjórann og 
fréttadeildarstjórann. Það finnst mér.

Kveðjur
Ólína