Fara í efni

Frú eða fröken doktor?

  Ég fylgdist með kastljósi Sjónvarpsins í gærkvöldi þar sem Hr. cand. jur. Davíð Oddsson forsætisráðherra var spurður spjörunum úr um öryggismál þjóðarinnar. Hann sagði frá samtali sínu við þjóðaröryggisráðgjafa Bandaríkjaforseta, dr. Condoleezzu Rice, enda var það höfuðatriði málsins í hans huga. Símleiðis og í eigin persónu hafði hún fullvissað forsætisráðherra um að hann gæti sofið rólegur næstu mánuðina því viðbúnaður Bandaríkjahers á Íslandi yrði óbreyttur í bili. Viðtalið við forsætisráðherra var fróðlegt í alla staði. Þannig nefndi hann  þjóðaröryggisráðgjafann jafnan og réttilega doktor Rice lengst af þættinum enda hefur hún sannanlega þá gráðu og það margfalda. Eina sem varpaði skugga á annars prýðilega frammistöðu forsætisráðherra og einkar upplýsandi umræðu var þegar honum urðu á þau mistök undir lokin að titla þjóðaröryggisráðgjafann “frú eða doktor Rice” og var engu líkara en hann væri ekki alveg viss um hjúskaparstöðu hennar. Þetta fannst mér og örugglega fleirum afskaplega miður. Með hliðsjón af framtíðarumræðum um öryggismál landsins er rétt að upplýsa hér að Condi - eins og hún er oft kölluð nú til dags - hefur aldrei verið gift. Í nýlegri umfjöllun í sænska Aftonbladet kemur eftirfarandi fram um þessa valdamestu konu heims sem vafalaust margir vildu að vini eiga
: “Jobbet är hennes liv. Trots att hon är singel går det inget skvaller om henne i Washington, en stad känd för sina långa  knivar.
– Jag har aldrig träffat någon jag vill leva med, säger hon.
Hon har ett begränsat privat umgänge. De helger hon inte tillbringar med jobb sitter hon gärna och tittar på amerikansk fotboll eller baseboll. Hon går på konserter eller shoppar.”
Já, þannig gengur lífið fyrir sig hjá þessari ágætu ungfrú – ungfrú doktor Condoleezzu Rice - sem símaði í Hr. cand. jur. Davíð Oddsson forsætisráðherra síðastliðinn miðvikudag. Þar gengur nú á með vinskap og umfram allt djúpri virðingu.
Með bestu kveðju,
Þjóðólfur