Fara í efni

Frábær dagskrá á Omega!

Ég vil þakka sjónvarpsstöðinni Omega og nýjum eigendum hennar fyrir yndislega dagskrá á laugardagskvöldið. Sérstaklega var ég uppnuminn af þættinum “Ég syng honum minn söng” með Árna Johnsen myndhöggvara og tónlistarmanni. Lag hans við sálm Jóns Bisness um foringjann var sérlega fallegt, já undurblítt. Og flutningur Árna var hreint út sagt stórkostlegur. Finnst mér vel koma til álita að gera þetta hugverk þeirra félaga að skyldusöng í öllum leik- og grunnskólum landsins, a.m.k einu sinni í viku. Hér á eftir er sálmur Jóns birtur með góðfúslegu leyfi höfundar en gítargripin hans Árna verða að bíða betri tíma vegna kunnáttuleysis á því sviði.

Minn konungur klár

Konungur minn, þú ert kóngur klár
með krullað og glitrandi englahár.
Á degi sem nóttu eg þjóna þér,
þvílík er sælan að hafa þig hér.

Maktugur ertu mildingur minn,
mjúkur og hlýr er faðmur þinn.
En ef röng er breytnin reiðist þú snart,
og reglustikunni beitir óspart.

Ef engin er harkan er ekkert blítt,
ef ekkert er gamalt er ekkert nýtt.
Já, þann veiginn ertu vor konungur klár,
þú kannt allt og veist allt upp á hár.

Ingólfur