Fara í efni

Flokkseigendur og fólk

Blessaður Ögmundur. Frá blautu barnsbeini hef ég verið jafnaðarmaður. Sú jafnaðarstefna sem ég hef aðhyllst hefur byggst á tveimur algerlega óaðskiljanlegum þáttum: Baráttu fyrir félagslegu og efnalegu réttlæti annars vegar og heiðarlegum, opnum og lýðræðislegum vinnubrögðum hins vegar. Sannast sagna setur mig nú hljóðan við það sem er að gerast innan vébanda Samfylkingarinnar; og einnig hins sem ekki er að gerast þar því flokksfólkið þegir allt þunnu hljóði sama hvernig ráðskast er með það. Ég ákvað að setjast niður og slá inn í tölvuna nokkur orð: Nokkur orð um flokkseigendur og fólk.

Það var vakin athygli á því á þessum vettvangi ekki alls fyrir löngu að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fráfarandi borgarstjóri, rökstuddi áhuga sinn á landsmálapólitík með því að hún vildi taka upp umræður um borgarmálin við Austurvöll og ekki bara í Tjörninni. Gild rök voru færð fram fyrir því að með rökstuðningi sínum væri fráfarandi borgarstjóri að ganga í lið með þeim sem kallaðir hafa verið kjördæmapotarar og að ganga gegn hefðbundnum áherslum gamla Alþyðuflokksins. Sá flokkur gerði, með réttu eða röngu, löngum út á andstöðuna við kjördæmapotið og jafnaðarmenn hafa raunar lengi haldið fram kröfunni um "landið sem eitt kjördæmi", sem í grunninn gengur gegn hugmyndum borgarstjóra um æskilegar áherslur á Alþingi. Ötull talsmaður hugmynda af þessu tagi var Vilmundur Gylfason, fyrrverandi alþingismaður Reykvíkinga. Hann var með þessum hætti merkisberi hinnar íslensku kratísku hefðar. Annað sem jafnaðarmenn í gamla Alþýðuflokknum lögðu oft ríka áherslu á var baráttan gegn því sem þeir kölluðu sjálfir flokkseigendafélagið. Þetta voru nokkrir einstaklingar sem í skjóli flokksstarfs, fjölskyldutengsla og vinskapar blönduðu svolítið saman sjálfum sér og stofnunum flokksins. Þeir áttu til að útiloka menn sem vildu berjast fyrir hugsjónum jafnaðarstefnunnar og eins og Vilmundur Gylfason sagði stundum:  "Þeir vilja að flokkurinn sé lítill og viðráðanlegur." Þetta varð svo krónískur vandi gamla Alþýðuflokksins - flokkseigendafélagið. Aðstæðurnar í gamla Alþýðuflokknum voru ekki alveg ókunnar í gamla Alþýðubandalaginu. Í kringum Þjóðviljann varð til hópur manna sem stundum skilgreindi sig sem "lýðræðiskynslóðin" og vildi með því greina sig frá hópunum sem voru ekki alveg ólíkir þeim sem Vilmundur nefndi flokkseigendafélagið í Alþýðuflokknum. Hugmyndafræðilegur guðfaðir hópsins var þá utangarðsmaður í Alþýðubandalaginu, hafði dottið út af þingi 1983 og var fyrir bragðið hálf landlaus. Þetta var Ólafur Ragnar Grímsson sem var formaður framkvæmdastjórnar Alþýðubandalagsins. Með honum í framkvæmdastjórninni var núverandi formaður Samfylkingarinnar, Össur Skarphéðinsson. Barátta lýðræðiskynslóðarinnar einkenndist oft af því að beita fyrir sig formlegheitum og fundarsköpum þegar átökin við "flokkseigendafélagið" stóðu sem hæst, og kynslóðin sú var sniðug að notfæra sér flokksblaðið, Þjóðviljann, í baráttu sinni gegn verkalýðs-og flokksforystunni í Alþýðubandalaginu. Gegn Ásmundi Stefánssyni og Svavari Gestssyni, svo tvö nöfn séu hér dregin fram í upprifjunarskyni. Átökin voru æsileg, oft bráðskemmtileg fyrir þá sem stóðu utan vígvallarins. Tveir áratugir eru frá því þetta átakaskeið stóð yfir í Síðumúlanum þar sem nú eru höfuðstöðvar SÍBS og vissulega er það langur tími í pólitík. Nú er það fulltrúi gömlu lýðræðiskynslóðarinnar í gamla Alþýðubandalaginu sem í gamla Alþýðuflokknum er orðinn flokkseigandi í orðsins fyllstu merkingu, sbr. skilgreiningin sem hér var dregin fram að ofan.  Nú mætir hann á Borginni í sínu fínasti pússi og tilkynnir að svilkona sín, fráfarandi borgarstjórinn í Reykjavík, verði eins konar yfirformaður flokksins - forsætisráðherrakandídat Samfylkingarinnar er það kallað. Aðferðin er andlýðræðisleg, virðingin fyrir öðrum frambjóðendum flokksins fullboðlegum er engin og hugmyndafræðin er flokkseigandans. Uppákoman nú er jafn einkennileg og kjördæmapotið, rökstuðningur fráfarandi borgarstjóra fyrir því að hasla sér völl í landsmálunum. Fyrir mann sem fylgist með stjórnmálum af hliðarlínunni er undarlegt að sjá nýja flokkseigendafélagið í stjórnmálaflokki skipa innri málum flokks síns, án þess að fá til þess formlegt samþykki til þess bærra flokksstofnana. Það er líka undarlegt að sjá formann stjórnmálaflokks ryðja úr vegi varaformanni sínum til að ná undir sig embætti hans og búa til sérstakt viðhafnarembætti fyrir borgarstjórann fráfarandi. Fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur, sem barðist gegn flokkseigendafélaginu með Vilmundi og sagði okkur frá því á vinnustaðafundum fyrir kosningar '78, hlýtur þetta virka eins og hver annar farsi. Fyrir Margréti Frímannsdóttur, sem var kosin sem varaformaður, eins og Össur formaður, hlýtur þetta að vera undarlegt í hæsta máta. Formið skiptir ekki máli, segja talsmennirnir. Fólkið í landinum hefur miklu meiri áhuga á því sem borgarstjórinn fráfarandi hefur að segja. Þessar röksemdirnar eru ekki ólíkar því sem bornar voru á borð vegna kosningasvindls Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæminu og að mörgu leyti jafn óheppilegar og mislukkuð yfirlýsing fráfarandi borgarstjóra um að hún myndi nú ígrunda framtíðina og opna pólitíska Pandóru öskju sína. Kannske var hún að segja okkur að úr henni myndi líka streyma illskan og þjáningin þannig að vonin ein yrði eftir, eins og í goðsögninni þar sem Seifur náði fram hefndinni gagnvart Prómþeifi, sem fékk ekki rönd við reist, þótt hann hefði hugboð um veikleika Pandóru. Það dugði ekki einu sinni að reyna að leysa málið á vettvangi fjölskyldunnar og gifta Pandóru Efiþemisi bróður sínum. Hugsanlega fer þannig með leikfléttur borgarstjórans fráfarandi að þær setja sennilegast  að lokum flokkseigendafélagið sjálft í uppnám. Vart verður því trúað að Össur Skarphéðinsson sé sjálfviljugur í þessu leik.

Kveðja, Hafsteinn