Fara í efni

FARIÐ Í FELUR MEÐ SKOÐANIR

Mér sýnist afstaða Besta flokksins,  Bjartrar framtíðar og nú síðast Pírata ganga út á að afnema stjórnmál í þeim skilingi að þau hætti að snúast um skipulag samfélagsins einsog verið hefur en fari að snúast eingöngu um leiðir til að taka ákvarðanir. Og jafnvel þessar leiðir eru þokukenndar! Vissulega skiptir miklu máli hvernig það er gert en það afsakar ekki skoðanaleysi eða feluleik með skoðanir.
Fyrrnefndir flokkar hamra á mikilvægi þess að rökræða en þegar til kastanna kemur fælast þeir og fela sig þegar spurt er um afstöðu til mikilvægra málefna, eignarhald og ráðstöfun auðlinda, skipulag heilbrigðismála, aðild að hernaðabandalögum svo dæmi séu nefnd.
Vilja Píratar vera í NATÓ? Það hefur aldrei komið fram svo ég viti. Vill Björt framtíð meiri einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu? Hvað með orkugeirann? Píratar segjast bara taka upplýstar ákvarðanir. Ekki sýnist mér þær vera neitt sérstaklega upplýstar. Ekki umfram ákvarðanir annarra stjórnmálamanna. Ef eitthvað er þá eru þær heldur ruglingslegri.
Haffi