Fara í efni

Falsanir notaðar sem röksemdir fyrir innrás

Ein af þeim röksemdum fyrir stríði í Írak sem Bush Bandaríkjaforseti og helstu haukarnir í kringum hann báru á borð fyrir eigin þjóð og umheiminn, var sú að Írakar stefndu að kjarnorkuvopnaframleiðslu. Sem sönnun fyrir þessum staðhæfingum vitnaði Bush til þess í ræðu sinni fyrir þinginu (the State of the Union speech) að Írakar hefðu ítrekað reynt að kaupa úraníum frá Afríkuríkinu Níger. Þessu sama höfðu hernaðarhaukarnir haldið fram opinberlega mánuðum saman og flaggað bréfaskriftum þar að lútandi sem sönnunum. Og margir létu sannfærast.

Þar til fyrir tveimur vikum að spilaborgin hrundi. Þá var það gert opinbert að bréfin voru fölsuð og höfðu kjarnorkuvopnasérfræðingar staðfest það sem og CIA. Það sem meira var, CIA skýrði frá því að þeir höfðu látið þessa skoðun í ljós við Hvíta húsið þegar árið 2001, stuttu eftir að þeir höfðu upphaflega gert Hvíta húsinu viðvart um tilvist skjalanna. Hvíta húsið notaðist sem sagt við "sannanir" sem hafði verið afneitað af þeirra eigin leyniþjónustu í meira en ár sem röksemdir fyrir stríði. Spurningum um hvort þetta hafi verið afglapaháttur hjá Hvíta húsinu eða meðvituð lygi, hefur hins vegar ekki verið svarað. Og nú mega menn ekki vera að því að eltast við svoa tittlingaskít. Þjóðin stendur í stríði.

Sjá nánar: http://www.motherjones.com/news/update/2003/13/we_338_01.html
Helgi