Fara í efni

ESB ÞRÝSTIR Á FRAKKA AÐ SELJA ARÐBÆRAR VATNSAFLSVIRKJANIR

Sæll Ögmundur,

Í franska sjónvarpinu í gær (áður en eldurinn í Notre Dame breiddist út) horfði ég á umræðuþátt þar sem gestir, pólítkusar, voru að bollaleggja um hvað Macron Frakklandsforseti myndi segja í ræðu sinni klukkan 20 um kvöldið (sem síðar var aflýst vegna brunans) og átti að vera svar við mótmælum Gulu vestanna,  ráðstafanir til þess að koma til móts við kröfur þeirra og útkomu "Le Grand Débat".

Einn gesta þáttarins sagði að Evrópusambandið væri að neyða Frakka til þess að selja vatnsaflsvirkjarnir einkaaðilum. Þótt þær skiluðu hagnaði fyrir landið. Hann gagnrýndi þá, sem vilja selja ríkiseigur og nota andvirðið í "nýsköpun"... þá sem segja að það sé ástæðulaust að hið opinbera "liggi með fé" í þessum mannvirkjum. Hann sagði að ef vantaði fé í nýsköpun, þá væri eðlilegast að nota hagnaðinn af þessum virkjunum í nýsköpunina, fremur en að selja þær, þær möluðu nú gull fyrir almenning. Allt var þetta nánast orðrétt það sem maður hefur heyrt og sagt á Íslandi.

Honum var tíðrætt um að það væri fáranlegt að taka peningana úr rekstri sem skilaði ávinningi fyrir franska þjóð, og tryggði þeim ódýrara rafmagn, til þess eins að setja upphæðirnar inn á banka, þar sem þær skila nánast engu.

Það var afar sérstakt að heyra þessa orðræðu. Ég gerði mér enga grein fyrir að Frökkum skuli líka finnast þeir ofurseldir þessari pólítík, að selja ríkiseigur sem skila hagnaði fyrir alla... að neyða þá til þess að selja vatnsaflsvirkjanir, með þeim afleiðingum að orkuverð hækki. Sýndi mér, að það eru ekki bara við Íslendingar, sem með einhvers konar sérvisku og sérhygli, vilja ekki undirgangast sameiginlegan orkupakka og nýta heldur orkuna í almannaþágu. Þú þekkir þetta betur en ég, alþjóðastraumana, en þetta var ákveðin uppljómun fyrir mig.
Bestu kveðjur,
Ragnar F. Ólafsson

p.s. Nicolas Dupont-Aignan er sá sem í er vitnað. í hann byrjar á 20. mínútu, á eftir Manon Aubry. Invités : Manon Aubry, Nicolas Dupont-Aignan et Jean-Christophe Lagarde