Fara í efni

Er hægt að banna spilakassa?

Ég er því hjartanlega fylgjandi að banna með öllu spilakassa. En spurningin er hvort það verði einhverntímann hægt. Hvar á að draga mörkin ? Munu forsvarmenn spilakassanna ekki setja fram rök eins og : Hvað með lotto, happaþrennu, tipp og líklega má lengi telja? Hvað þarf að gerast svo einhverjir sjái að sér, hvað þarf að gerast til þess að Alþingi leggi bann við þessu ? Mér skilst að það séu til lög sem banna fjárhættuspil og það sé refsivert að hafa af því tekjur. Af hverju er ekki verið að framfylgja lögunum ?
Bestu kveðjur Orri Hermannsson 

Komdu sæll Orri og þakka þér fyrir bréfið.
Hvers vegna ætti ekki að vera hægt að úthýsa spilakössum úr þjóðfélaginu? Við þurfum að fá skýr lög og góða samstöðu landsmanna. Til þess að svo megi verða þurfum við að sjá þeim þjóðþrifastofnunum sem hafa tekjur af kössunum fyrir nýjum tekjustofnum.

Ég er þér hins vegar sammála að það er á brattann að sækja. Það er vissulega mikil fyrirstaða gegn því í þjóðfélaginu að banna kassana. Vandinn er sá að eigendur spilavélanna stórgræða á þeim og sjoppueigendur og aðrir sem hafa kassana í húsakynnum sínum hafa af þeim tekjur. Þannig eru þeir sem eiga kassana og starfrækja þá ekkert síður háðir þeim en hinir spilasjúku. Í þessu felst vandinn kannski fyrst og fremst.

Hvar á að draga mörkin?

Þú veltir því fyrir þér hvar eigi að draga mörkin. Ég vil losna algerlega við kassana en fagna hins vegar öllum skrefum sem stigin eru til að takmarka aðgengi að þeim. Það væri til dæmis mjög til bóta að koma þeim út úr sjoppunum þar sem unglingarnir sækja í þá og eins ýmsir aðrir sem um þær eiga leið. Þetta auðvelda aðgengi að kössunum skapar mikla freistingu fyrir þá sem veikir eru fyrir. Þá myndi ég fagna því að þeir yrðu ekki heimilaðir á vínveitingastöðum. Mér finnst einnig til bóta að setja viðvörunarorð á kassana og opnun neyðarlínu er einnig mikilvægur áfangi.  Með öðrum orðum þá fagna ég öllum skrefum sem stigin eru fram á við.

Þú nefnir lottó, happaþrennu, tipp og fleira. Sannast sagna er ég ekki alveg búinn að gera það upp við mig hvað er rétt og rangt í þessu efni. Almennt finnst mér þó vera rangt að æsa spilafíknina upp í fólki á þennan hátt. Varðandi kassana eru línurnar hins vegar skýrar og afdráttarlausar í mínum huga. Ég veit ekki hvort menn gera sér almennt grein fyrir því að spilavítin í Las Vegas eru að uppistöðu til samsafn af spilakössum áþekkum þeim sem hér eru reknir.

Lögin

Þú spyrð um lög sem banni fjárhættuspil. Ég fletti upp greinunum sem er að finna í almennum hegningarlögum um þetta efni en þau eru nr.19 frá 1940:
181. gr. Nú þykir lögreglustjóra ástæða til að ætla, að maður hafi ekki ofan af fyrir sér á löglegan hátt, og er hann þá skyldur að skýra frá, af hverju hann hafi framfærslu sína og færa rök að. Ef hann gerir það ekki, eða hann aflar sér framfærslu með ólöglegu móti, svo sem með sölu á bannvöru, fjárhættuspili …1) þá skal refsa honum með fangelsi allt að 2 árum, enda liggi ekki þyngri refsing við eftir öðrum lögum.
183. gr. Sá, sem gerir sér fjárhættuspil eða veðmál að atvinnu eða það að koma öðrum til þátttöku í þeim, skal sæta sektum …1) eða fangelsi allt að 1 ári, ef miklar sakir eru.
Ákveða skal með dómi, hvort vinningi af fjárhættuspili eða veðmáli skuli skilað aftur eða hvort hann skuli gerður upptækur.
184. gr. Hver, sem aflar sér tekna beint eða óbeint með því að láta fjárhættuspil eða veðmál fara fram í húsnæði, er hann hefur umráð yfir, skal sæta sektum …1) eða fangelsi allt að 1 ári.

Mönnum finnst óneitanlega skjóta skökku við að hér séu rekin spilavíti á borð við Gullnámuna, að því er virðist í trássi við þessi lög. Eftir því sem ég kemst næst þá varð þróun þessara mála á þann veg að um miðbik síðustu aldar voru menn oftar en einu sinni dæmdir fyrir að brjóta ofangreind lög. Síðar komu spilakassarnir til sögunnar og urðu þeir mikilvæg fjáröflunarleið fyrir Rauða kross Íslands. Rauði krossinn mun hins vegar hafa verið kærður haustið 1993 með skírskotun til ofangreindra laga frá 1940 en í kjölfarið voru sett lög um söfnunarkassa bæði fyrir Rauða kross Íslands og aðra aðila sem löggjafanum þótti vert að veita aðgang að vösum fjárhættuspilara. Um svipað leyti, árið 1994, voru samþykkt lög um breytingu á lögum um Happdrætti Háskóla Íslands sem heimiluðu Háskólanum að reka spilakassa. Forsvarsmenn spilakassanna segja að lögin taki af öll tvímæli um lögmæti þessara spilavíta. Undarleg lógík, en dómstólar einir geta sagt til um það. Við getum hins vegar kveðið upp úr um siðferðið. Þessi lög má nálgast á heimasíðu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, www.domsmalaraduneyti.is,

Lög um Happdrætti Háskóla Íslands, nr. 13/1973 með breytingum.

Reglugerð um pappírslaust peningahappdrætti Happdrættis Háskóla Íslands, nr.     455/1993 og síðari breytingar

Lög um söfnunarkassa, nr. 73/1994. 

Aðdáunarvert framtak einstaklings

Þess má geta að þegar Háskóli Íslands ákvað að seilast ofan í pyngju fólks sem haldið er spilafíkn með því að hefja rekstur á spilakössum þá sat ungur maður í Háskólaráði fyrir hönd stúdenta, Ásgeir Ólafur Pétursson að nafni. Hann mótmælti því harðlega að Háskóli Íslands legðist svo lágt að gera sér óhamingju fólks að féþúfu enda stríddi það gegn landslögum. Kvaðst hann myndi segja sig úr Háskólaráði ef þetta yrði gert. Háskólayfirvöld létu sér ekki segjast og hófu rekstur á spilavítum. Ásgeir Ólafur sagði sig þá úr Háskólaráði. Þetta þótti mér sögulegt og þykir enn þann dag í dag mjög aðdáunarvert. Þarna var á ferð maður sem fylgdi hugsjónum sínum eftir og var sjálfum sér samkvæmur.