Fara í efni

ER EINKAVÆÐING LAUSN Á FJÁRHAGSVANDA STRÆTÓ BS?

Enn á ný heyrast raddir um að hagkvæmasti kosturinn sé að bjóða út allan akstur á vegum Strætó bs. Þannig ætla stjórnmálamenn að leysa þann fjárhagsvanda sem steðjar að fyritækinu og er til kominn vegna hækkunar á olíuverði og hárra vaxta. Á sama tíma eru þessir sömu menn að slá sig til riddara með því að bjóða frítt í Strætó.  Öll sveitarfélögin utan Garðabæjar bjóða frítt fyrir framhaldsskólanemendur.  Kópavogur vill bjóða betur og hafa gjaldfrítt í Strætó fyrir þá sem búa í Kópavogi.  Og á sama tíma og þeir eru að skerða tekjur fyrirtækisins eru þeir ekki tilbúnir að bæta við þeim 300 miljónum sem upp á vantar í reksturinn. Halda þeir kannski að rekstrarkostnaðurinn minnki við að bjóða frítt í Strætó? Þegar öll sund virðast vera lokuð, þar sem ekkert af sveitarfélögunum vill auka framlag sitt til Strætó fær einhver þá snilldar hugmynd að lausnin sé að bjóða aksturinn út. Hver er sparnaðurinn ef farið verður í útboð? Hann liggur fyrst og fremst í launakostnaði sem er um 65% af rekstrarkostnaði fyrirtækja. Til upplýsingar fyrir þá sem ekki vita það er allur akstur í Kópavogi, Garðabæ, Álftanesi, Hafnarfirði, Kjalarnesi, Akranesi, og þrjár leiðir innan Reykjavíkur eknar af verktökum og eru laun þeirra vagnstjóra töluvert lægri en vagnstjóra hjá Strætó bs þrátt fyrir að ekki sé búið að semja við þá vagnstjóra sem eru félagar í Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar. Ef borgar- og bæjarfulltrúum finnst laun upp á 150 til 197 þúsund á mánuði vera að gera út af við fyrirtækið eiga þeir bara að segja það umbúðalaust og muna það svo með okkur þegar gengið verður til kosninga næst.
Höfundur situr í fulltúaráði St.Rv.