Fara í efni

Er ég ekki til, eða hvað?

Blessaður Ögmundur minn.
Upp á síðkastið hef ég lagst í dálitlar heimspekilegar vangaveltur og tengjast þær þenkingar mínar að stórum hluta Bush Bandaríkjaforseta og stjórn hans. Alls kyns fræðingar í íslensku menningarelítunni tala nú mikið um póstmódernisma eins og ekkert sé sjálfsagðara. Ekki liggur þetta hugtak fyrir fótum mér en ég veit þó að þetta tengist ekkert póstþjónustunni eins og sumir, bæði leikir og lærðir, hafa talið. Svo langt sem ég næ í þessari umræðu virðist mér helst á ofangreindum fræðingum að skilja að mannlífið á hnettinum okkar sé ein allsherjar óreiða og jafnvel ganga þeir svo langt að halda því fram að ekkert sé til. Undir þetta get ég nú ekki tekið að óathuguðu máli en þó gæti bandaríska heimsvaldastefnan ýtt undir framgang póstmódernismans og trú mína á að hann eigi við í sumum tilvikum. Enginn fótur virðist nefnilega fyrir aðgerðum Bandaríkjastjórnar í Miðausturlöndum. Þeir leita óvina dyrum og dyngjum en finna engan. Bin Laden og Saddam Hussein eru horfnir af yfirborði jarðar og skilja ekki eftir sig nein spor. Meira að segja tvífararanir hans Saddams sem okkur voru sagðar daglegar fréttir af í öllum heimsins fjölmiðlum finnast ekki og voru þó hátt í 50 ef ég man rétt. Getur verið að allar þessar persónur hafi í raun og veru aldrei verið til, rétt eins og efnavopnin sem Bandaríkjamenn og fylgihnettir þeirra hafa leitað á undanförnum vikum eins og lúsa? Og er nema von að maður hugleiði stundum - kominn á bólakaf út í þessa sálma – hvort vera kunni að maður sé ekki sjálfur til. Hvað segir þú um þessar hugleiðingar mínar og getur þú ef til vill lagt mér eitthvert lið í þessum efasemdum sem sækja nú að mér um tilvist mína og raunar heimsins alls?
Kveðja,
Þjóðólfur.

Heill og sæll Þjóðólfur minn.
Ekki get ég orðið þér að liði í þessum þrengingum. Einhverju sinni var sagt að veruleikinn væri blekking. Núverandi stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa hins vegar sannað að blekking getur verið veruleiki. Helsta ráðið er að klípa sig í handlegginn og reyna að sjá í gegnum blekkingarvefina.
Kveðja,Ögmundur