Fara í efni

ENGINN BER ÁBYRGÐ Á NÁTTÚRU-LÖGMÁLUNUM!

Skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis hefur orðið stóri sannleikur á Íslandi eftir hrun. Ég vildi ég ætti túskilding fyrir hvert skipti sem stjórnmálamenn eða hagsmunahópar hafa bent á að þeirra hugmyndir séu einmitt í samræmi við það sem rannsóknarnefndin sagði.
Í fyrstu taldi ég að skýrslan hefði svipað gildi fyrir íslenskt samfélag og ef þríeykið í nefndinni hefði komið með niðurstöðuna klappaða í stein beint frá almættinu. Skýrslan væri þá nokkurskonar boðorð sett fram til að bregðast við veikleikum okkar og til að halda okkur á beinu brautinni héðan í frá. En þegar stundir liðu fram kom í ljós að þessi skoðun var ekki allskostar rétt. Skýrslan er enn höfð í hávegum og enginn efast um mikilvægi hennar fyrir samfélagið.
Af viðbrögðunum að dæma er skýrslan frekar á stalli með náttúrulögmálum en boðorðum. Það efast enginn um þau en það er heldur enginn ástæða til þess að grípa til sérstakra aðgerða vegna þeirra. Nú vil ég ekki gera lítið úr stjórnsýsluskólanum og stjórnlagaþinginu. Þær uppákomur má líta á sem bein viðbrögð ríkisstjórnarinnar við niðurstöðu rannsóknarskýrslunnar og eru einar og sér alls góðs maklegar. Þessar ráðstafanir sneiða hinsvegar hárfínt framhjá kjarna málsins. Þessar aðgerðir bregðast ekki við þeim raunveruleika að íslensk stjórnvöld skópu forsendur fyrir stærstu efnahagsbólu Vesturlanda, stóðu aðgerðalaus hjá meðan blaðran þandist út og kepptust við að blása sjálf þegar hún fór að leka.
Stjórnsýsluskólinn gefur í skyn að orsakarinnar sé að leita í þekkingarleysi almennra starfsmanna stjórnarráðsins og stjórnlagaþingið að einhver veila í stjórnarskránni hafi valdið þessu. Það er bara mannlegt að íslenskir ráðamenn fyrr og nú vilji ekki líta sér nær. Í bjartsýni minni vona ég þó að þessar tvær uppákomur séu skipulagðar af þeim ásetningi að drepa málinu á dreif fremur en að stjórnvöld séu í raun að leggja sig fram og hafi ekki grænan grun um hvað þau ætla að gera næst.
Árni V.